Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 10:51:15 (4439)

2000-02-17 10:51:15# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, KLM
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[10:51]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Sú þáltill. um vegáætlun fyrir árin 2000--2004 sem hæstv. samgrh. hefur fylgt úr hlaði er afar merkilegt og mikilvægt plagg. Í þessari vegáætlun til næstu fimm ára er m.a. fjallað um notkun og eyðslu á u.þ.b. 50 milljörðum kr. Áætlunina verður m.a. að skoða í því ljósi að Ísland er í raun og veru vanþróað ríki í vegamálum. Ég hugsa að leitun sé að þeirri þjóð, a.m.k. í okkar heimsálfu, sem er eins illa á vegi stödd og við Íslendingar hvað vegamál varðar. Mjög stór hluti vegakerfis okkar er með holóttum vegum, jafnvel ófær á vetrum og vegfarendur í rykkófi á sumrin ef þeir eru þá ekki ófærir vegna aurbleytu ef veðurfar er þannig.

Draga má þá ályktun að fjármagn til vegamála hafi verið allt of lítið á undanförnum árum. Fjárveitingar til vegamála hafa því ekki verið í neinu samræmi við þær brýnu þarfir sem blasa alls staðar við bæði hér á höfuðborgarsvæðinu svo og á landsbyggðinni. Markaðar tekjur Vegasjóðs hafa mjög oft á undanförnum árum og áratugum verið skertar og verkefnum til Vegagerðarinnar hefur verið fjölgað án þess að tekjur komi með og nefni ég þar flóabátana sem dæmi. Sama má segja um önnur aukin verkefni Vegagerðarinnar svo sem eftirlit með ökuritum og vinnutíma bílstjóra, aflestur og eftirlit með þungaskatti, sérleyfiseftirlit og margt fleira. Að vísu kemur stórbætt innheimta á þungaskatti til eftir að Vegagerðin fór að sýsla með þetta mál.

Framkvæmdafé Vegagerðarinnar er nú skert um 126 millj. kr. sem verða geymdar í ríkissjóði og frestun framkvæmda upp á 585 millj. kr., allt í nafni þess að minnka þenslu sem mælist aðeins á höfuðborgarsvæðinu en ekki úti á landi þar sem þörfin á vegabótum er afar brýn. Árið 1999, á kosningavori, ákvað hæstv. ríkisstjórn að auka framkvæmdafé Vegagerðarinnar um 2 milljarða eða 500 millj. kr. á ári. Þetta var m.a. gert eftir tillögu frá okkur sem sátum í svokallaðri byggðanefnd forsrh. þótt þessir peningar hafi ekki verið notaðir í það sem hv. nefnd lagði til. Það er náttúrlega ansi skondið að samþykkja aukningu á kosningaári en fresta henni svo að loknum kosningum.

Samkvæmt vegáætluninni á að verja rúmum 4,7 milljörðum kr. eða réttara sagt 4,2 milljörðum að teknu tilliti til skerðinga, til nýrra þjóðvega og brúa og ég legg áherslu á þessa skerðingu vegafjár. Þessir 4,2 milljarðar eru aðeins lítill hluti af útgjöldum ríkisins og lítill hluti af vergri landsframleiðslu. Þetta fé mætti auka, t.d. með hluta af bifreiðagjaldi sem rennur til ríkissjóðs en þær tekjur hafa stóraukist síðustu ár með miklum innflutningi á bifreiðum en talið er að bifreiðaeign landsmanna hafi aukist um 40% síðan 1994. Þörfin á auknum framkvæmdum í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu er m.a. til komin vegna þessarar fjölgunar á bifreiðaeign og ríkissjóður verður að leggja eitthvað af þessum stórauknu tekjum sínum til frekari framkvæmda.

Þál. um langtímaáætlun í vegagerð sem samþykkt var á hv. Alþingi 2. júní 1998 var og er mjög merkilegt plagg og vinnubrögð til mikillar fyrirmyndar, vinnubrögð sem við mættum sjá á fleiri sviðum þjóðlífsins. Með þessari þingsályktun var stefna mörkuð til tólf ára og þessu tímabili skipt niður í þrjú framkvæmdatímabil. Samkvæmt þessari áætlun á að verja u.þ.b. 115 milljörðum kr. til rekstrar vegakerfis okkar og nýbygginga, hér er verið að tala um stóra og mikla fjármuni.

Í þjóðfélaginu verða alltaf skiptar skoðanir á því hvernig þessu fé er varið og skipt milli kjördæma og milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Vegáætlun og vegagerð eru í senn mikil byggðaáætlun enda má segja að byggðastefna sé í senn þjóðfélagsleg og efnahagsleg. Dæmi um þjóðfélagsleg markmið eru aðgerðir til að draga úr svæðisbundnum mun lífskjara og búsetuskilyrða svo sem tekjumun, mun á atvinnuleysi, tækifærum og þjónustu. Slík markmið tengjast oft réttlætis- eða sanngirnissjónarmiðum stjórnmálanna svo sem því viðhorfi að sanngjarnt sé að öll svæði landsins njóti ávaxta af hagvexti og allir þegnar skuli eftir megni njóta sambærilegra tækifæra.

Annað dæmi um þjóðfélagsleg markmið byggðastefnu er að halda landsvæðum í byggð og milda áhrif örra þjóðfélagsbreytinga. Dæmi um efnahagsleg markmið byggðastefnu eru m.a. þau að nýta betur náttúruauðlindir og landgæði, nýta betur fyrirliggjandi fjárfestingu, nýta betur vinnuafl, bæta virkni markaðsafla, bæta samkeppnishæfi jaðarsvæða og aftra ofþenslu á miðsvæðum eða stærstu þéttbýlisstöðunum. Svo segir í skýrslu sem er fylgirit með byggðaáætlun sem samþykkt hefur verið hér á Alþingi.

Ég sagði áðan að vegamál væru einn stærsti byggðamálaflokkurinn enda er það svo að viðhorf íbúa til búsetuskilyrða á hættusvæðum á landsbyggðinni eru þau að um 58% íbúa segjast óánægðir með lagningu og viðhald vega.

Herra forseti. Jafnframt með því að hæstv. samgrh. fylgi úr hlaði þessari vegáætlun hefur hann kynnt hér skýrslu um jarðgangaáætlun. Ég verð að segja að sú skýrsla er ákaflega faglega unnin og þeim sem hana hafa unnið til mikillar fyrirmyndar. Þá á ég við Vegagerðina sem hefur unnið þetta eftir forskrift og eftir tillögu frá hæstv. samgrh. sem hrinti þessu máli í framkvæmd eftir samþykkt þáltill. um að vinna langtímaáætlun í jarðgangagerð sem hér var gert vorið 1999. Þessi skýrsla, þó við höfum ekki haft mikinn tíma til að lesa hana, er afar merkilegt plagg og kannski eitt stærsta atriðið inn í byggðamálaumræðu í landinu. Í upphafi nýrrar aldar er jarðgangagerð í anda þeirra nýju tíma og það sem við ætlum að sjá á næstu öld. Jarðgangaáætlun og jarðgöng eru nútímaleg vegagerð í takt við nýja öld í stað þess að klöngrast yfir há og mikil fjöll.

Þessi áætlun er unninn á mjög faglegan hátt eins og segir í inngangi. Þar er talað um að sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarra kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Það er einmitt það sem ég vil leggja höfuðáherslu á að eru þessi aðalatriði. Þar sýnist mér áætlunin hafa tekið mjög vel á þessum málum.

Síðan eru nefndir þeir kostir hér sem fyrstu verkefni til tíu ára sem hæstv. samgrh. sagði frá í réttri röð miðað við landafræðina, Arnarfjörður/Dýrafjörður, Siglufjörður/Ólafsfjörður, Reyðarfjörður/Fáskrúðsfjörður og sérstaklega raðað þar upp tveimur verkþáttum, þ.e. Siglufirði/Ólafsfirði, Reyðarfirði/Fáskrúðsfirði og lagt til þar að um 300 millj. kr. verði varið til þess að fara í frekari hönnun og undirbúning og vinnu við útboðsgögn vegna þessara tveggja verka. Hér eru líka viðhöfð mjög fagleg vinnubrögð, að ætla sér að bjóða út þessi verkefni samtímis sem mun örugglega leiða til stórsparnaðar fyrir verkkaupa með betri tilboðum.

Herra forseti. Þessar átta mínútur sem okkur eru ætlaðar til þess að ræða þessi mál eru náttúrlega engan veginn nógur tími til að ræða svo viðamikið mál. Ég er í hv. samgn., ég bíð spenntur eftir að fá þessi verkefni til okkar og hlakka mikið til að vinna þau.