Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 11:08:04 (4441)

2000-02-17 11:08:04# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, JónK
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[11:08]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið að það mál sem hér er til umræðu er afar mikilvægt landsmál og byggðamál því að góðar vegasamgöngur eru eitt af því sem er mikilvægast fyrir mannlíf í landinu. Kröfurnar vaxa í þessum efnum frá ári til árs. Það er ekki nóg að komast leiðar sinnar einstaka sinnum á veturna heldur gerir nútímalíf kröfur um góðar og greiðar samgöngur.

Það hefur verið gert mjög mikið í vegamálum á undanförnum árum en þarfirnar eru miklar. Það hefur verið varið miklum fjármunum til þessa málaflokks en það vantar enn meiri fjármuni til þess að standa undir þeim verkefnum sem fram undan eru. Þess vegna finnst mér, og ég veit að þær skoðanir eru uppi innan stjórnarflokkanna, að réttlætanlegt sé að verja tekjum af sölu ríkiseigna til fjárfestinga í samgöngumannvirkjum og ég veit að unnið er að hugmyndum á því sviði.

Ég vil á þeim stutta tíma sem ég hef til umráða gera að umtalsefni það fylgiskjal sem hér er lagt fram um jarðgangagerð. Það er í framhaldi af þál. sem var samþykkt á síðasta þingi um langtímaáætlun um jarðgangagerð. Það var nauðsynlegt vegna þeirrar umræðu sem kom upp um jarðgöng að samþykkja slíkt plagg. Það var í fyrsta skipti á síðasta þingi samþykkt langtímaáætlun um vegamál og þar var einnig samþykkt að jarðgangagerð væri sjálfstæð ákvörðun og fjármögnun þeirra. En umræðan kom, eins og ég segi, upp mjög samhliða og það var nauðsynlegt að festa hana í áætlun líkt og langtímaáætlun í almennri vegagerð.

Fyrsti afraksturinn af þessu liggur nú fyrir framan okkur og hæstv. samgrh. hefur lýst því hér í framsögu. Saga jarðgangagerðar á Íslandi er orðin nokkuð löng. Fjallað var um jarðgangagerð í umræðum í langtímaáætlun í vegagerð sem lögð var fyrir Alþingi árin 1990 og 1991. Þar var gert ráð fyrir svokölluðum Austfjarðagöngum. Þessi áætlun hlaut ekki samþykki sem ályktun Alþingis en um hana var skilað nál. Þar segir:

,,Á öðru tímabili`` --- annað tímabil er á árunum 1995--1998 --- ,,er gert ráð fyrir að framkvæmdum og greiðslum vegna Vestfjarðaganga ljúki og framkvæmdir við Austfjarðagöng hefjist og verði þeim síðan haldið áfram á þriðja tímabili`` --- sem er 1999--2002.

Ég segi þetta til að draga það fram að umræður á Austurlandi um jarðgöng eru ekki nýjar af nálinni. Ég verð að láta það koma fram hér að þessi Austfjarðagöng sem voru á sínum tíma gaffall frá Norðfirði til Seyðisfjarðar og upp á Hérað eru horfin út úr þessari áætlun vegna breyttra aðstæðna en í staðinn er komin góð framkvæmd, þ.e. frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar og hún er sett í fyrsta pakkann. En ég verð að segja að þessi hlutur Austurlands eftir öll þessi ár er rýr og þingmenn Austurlands eru sammála um það. Við munum leggja á það mikla áherslu við umræður um þessi mál að það komi önnur göng á Austurlandi inn í þennan fyrsta pakka og af þessum fyrsta pakka. Ég hef ekki út af fyrir sig athugasemdir við að bjóða út jarðgöng á Austurlandi og Norðurlandi í einu lagi. Ég tel það skynsamlegt ef það sparar 500 millj. kr. Ég geri ekki athugasemdir við það. Hins vegar munum við leggja á það mikla áherslu að önnur jarðgöng komi á Austurlandi inn í þennan fyrsta flokk. Við höfum rætt þetta mál þingmennirnir og erum sammála um þetta. Og vegna þess að stefnt er að því að stytta vegalengdir og rjúfa einangrun, stækka atvinnusvæði þá vil ég sérstaklega benda á tenginguna frá Norðausturlandi til Héraðs í þessum efnum.

Í þeirri framhaldsvinnu sem eftir er munum við draga þennan kost fram m.a. þó að reyndar falli miklu fleiri jarðgangakostir á Austurlandi undir styttingu vegalengda, stækkun atvinnusvæða og til að rjúfa einangrun, t.d. göng frá Eskifirði til Norðfjarðar. Ég vil sérstaklega benda á tengingu Norðausturlandsins frá Vopnafirði til Héraðs í þessu sambandi. Þessum sjónarmiðum munum við halda á lofti í umræðum um þessa áætlun.

[11:15]

Ég hef enga löngun til að bítast á um jarðgöng milli landshluta. Ég hef ekki, vegna umræðu um jarðgöng á Norðurlandi og Austurlandi, athugasemdir við að þau verkefni verði boðin út í einum pakka. Ég tel skynsamlegt að ljúka þeim rannsóknum sem þar eru eftir og bjóða síðan þessi verk út. En ég tel að sá jarðgangapakki á Austurlandi, sem á sínum tíma var kominn hér á lokastig í afgreiðslu Alþingis árið 1991, hafi rýrnað allverulega í meðförum á þessum áratug. Við munum hins vegar halda þeim sjónarmiðum til streitu.