Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 11:16:37 (4442)

2000-02-17 11:16:37# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[11:16]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., lét að því liggja að nauðsynlegt væri að selja ríkiseignir til þess að hægt væri að ráðast í framkvæmdir í vegagerð. Ég vil því leyfa mér að spyrja hv. þm.: Er það að hans mati forsenda þess að ráðist verði í þær framkvæmdir að áfram verði haldið í sölu ríkiseigna? Í öðru lagi: Hvað með andvirði þeirra banka sem við höfum verið að selja og gengið var frá sölu á á síðasta ári? Er þess kannski að vænta að við getum fengið andvirði þeirra til þessara framkvæmda? Í þriðja lagi: Hvað þurfum við að selja margar eignir og mikið til að röðin komi þá loksins að því að andvirðinu verði varið til þessara vegaframkvæmda?

Og í síðasta lagi vildi ég gjarnan spyrja hv. þm.: Telur hann eðlilegt að tengja þetta svona saman, þ.e. sölu ríkiseigna og nauðsynlegar vegaframkvæmdir og samgöngubætur, undirstöðu þjóðlífs og mannlífs í landinu?