Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 11:44:23 (4451)

2000-02-17 11:44:23# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[11:44]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er alltaf jafnskemmtilegt þegar við komum saman til að ræða vegáætlun því að hér er um verkefni að ræða sem þingmenn hafa alla jafna mikinn áhuga á og ekki síst landsbyggðarþingmenn. Hér er um mikið og gott byggðamál að ræða sem skiptir okkur öll gífurlega miklu máli.

[11:45]

Ég vil byrja á að nefna eitt atriði sem kemur fram í vegáætluninni, í þáltill., og það er tillaga um að breyta flokkun vega þannig að hringvegurinn um Austurland liggur nú um svokallaða Háreksstaðaleið á Jökulsdalsheiði en ekki yfir Möðrudalsfjallgarða. Þetta er að sjálfsögðu vegna þess að nú í sumar lýkur vinnu við Háreksstaðaleið sem mun verða gífurlega mikil samgöngubót og mikill áfangi í tengingu Norður- og Austurlands. Ég tel fulla ástæðu til að benda á þetta sérstaklega en jafnframt að eftir eru heilmiklir áfangar enn þá í tengingu Norður- og Austurlands sem ég hefði haldið að við yrðum að leggja aukna áherslu á, ekki síst í ljósi þess að nú eru þessi tvö kjördæmi, Norðurland og Austurland, að verða að einu. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að íbúar þessara tveggja kjördæma sem nú eru geti farið að starfa betur saman sem ein heild.

Ég vil einnig benda á hvað flýtifjármagnið svokallaða sem kom inn í tengslum við þetta mál, 500 millj. á ári, á árunum 2000--2002, hefur haft mikil áhrif og mun hafa mjög sýnileg áhrif til að tengja einmitt Norður- og Austurland. Í sumar og næsta sumar munu nást miklir áfangar í byggingu vegar í Jökuldal sem er þá enn einn áfanginn í tengingunni.

Talað hefur verið um hversu mikið byggðamál hér er um að ræða og það er orð að sönnu. Ég vil minna á að í þáltill. um byggðamál sem samþykkt var á Alþingi sl. vor er talað um svokallaða byggðavegi sem eru verkefni þar sem verið er að koma hinum dreifðari byggðum betur inn í vegasamband. Í 13. tölulið þál. er svohljóðandi setning, með leyfi forseta:

,,Gert verði átak í uppbyggingu vega í þeim landshlutum þar sem samgöngur eru ófullnægjandi (jaðarsvæði) svo að þær verði í samræmi við nútímaþarfir.``

Til slíkra verkefna hefur Vegagerðin áætlað að þurfi um 5--6 milljarða kr. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við verðum að taka okkur fyrir hendur í samgn. að skoða hvort það geti rúmast einhvers staðar innan vegáætlunar.

Ég vil einnig minna á verkefni á Austurlandi. Það var vitað mál við afgreiðslu síðustu vegáætlunar að ekki var nægilegt fé til og þar nefni ég tenginguna við Vopnafjörð upp á hringveginn, upp á svokallaða Háreksstaðaleið sem ég nefndi áðan. Ljóst er að til þessa verkefnis þarf að auka nokkuð við fé til að hún geti orðið að veruleika, þ.e. lagning vegarins um Hofsárdal. Ég tel afskaplega mikilvægt að við flýtum þeirri framkvæmd þannig að Vopnfirðingar komist í gott vegasamband og það verður hreinlega að ráðast í að hefja undirbúning nú þegar vegna þess að við urðum fyrir þeirri leiðinlegu reynslu varðandi byggingu vegarins um Háreksstaði að þar kom umhverfismat í veg fyrir að hægt væri að halda þar fullum hraða. Þetta er það sem við búum við núna, að umhverfismat og undirbúningur framkvæmda tekur miklu lengri tíma en áður var og í þessu tilfelli seinkaði framkvæmdum um meira en eitt ár. Og á þeim svæðum þar sem við erum að tala um framkvæmdir, uppi á heiðum þar sem stærstu framkvæmdirnar eru eftir, að þá er framkvæmdatími mjög stuttur og slík seinkun á undirbúningi hefur mjög alvarlegar afleiðingar. Þess vegna er mikilvægt að Vegagerðin byrji á að undirbúa nú stærri verkefni sem við sjáum fyrir að þarf að ráðast í til þess að m.a. umhverfismat og allt það kæruferli sem gert er ráð fyrir í umhverfismatinu verði ekki til þess að fresta framkvæmdum svo mjög sem við þekkjum.

Hæstv. forseti. Menn hafa talað hér um jarðgangaáætlun og ég hlýt eins og aðrir að fagna því sérstaklega, núna við þetta tækifæri, að hún skuli liggja fyrir. Upphafið að því að hún er til umræðu var þegar sú sem hér stendur og Egill Jónsson, sem var þingmaður á Austurlandi á síðasta kjörtímabili, fluttum tillögu um að hefja undirbúning við jarðgangagerð á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Upp úr þeim tillöguflutningi og jákvæðum umsögnum sveitarstjórna á Austurlandi varð til ályktun um langtímaáætlun um gerð jarðganga. Það er ákaflega mikilvægt að vera búin að fá jarðgangaáætlun upp í hendurnar núna þegar við förum að vinna vegáætlun. Því það segir sig sjálft að mörg af þeim verkefnum sem verða til þegar við hefjum jarðgangagerð þurfa að koma inn í vegáætlun og einnig getum við þá hætt við aðrar framkvæmdir sem jarðgöngin leysa af hólmi. Í þeim verkefnum sem hér er lagt til að verði hafist handa við, þ.e. jarðgöng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar annars vegar og hins vegar á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, þá er verið að leysa af hólmi aðrar framkvæmdir og er ástæða til að nefna að þarna er um mikinn sparnað í öðrum vegaframkvæmdum að ræða.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er að verða búinn en ég vil að lokum þakka hæstv. samgrh. fyrir hversu vel hann hefur unnið að málinu og ekki síst Vegagerðinni sem hefur unnið þetta mál sérstaklega vel og ber að þakka þær frábæru skýrslur sem hér liggja fyrir þegar við fjöllum um vegáætlun í dag.