Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 11:52:45 (4452)

2000-02-17 11:52:45# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, KPál
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. samgrh. fyrir innlegg hans í þetta mál. Þessi þál. er að sönnu það sem stefnt hefur verið að og stjórnarflokkarnir vinna saman að því hvernig koma megi áfram þeim miklu vegaframkvæmdum og umbótum á vegakerfi sem nauðsynlegar eru. Það er að sönnu erfitt verkefni en samt mjög ánægjulegt hversu mikið hefur áunnist í þeim málum á undanförnum árum. Það er að vísu slæmt að við skulum hafa þurft að fresta verkefnum á þessu ári, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, en þess ber þó að geta að í tengslum við þá frestun erum við að tala um framkvæmdir sem í rauninni var ekki hægt að hefja strax og er það ekki til skaða þegar upp er staðið. Við þjöppum því framkvæmdatímabilinu saman frekar en að fresta notagildi þessara framkvæmda og út af fyrir sig er það aðalatriðið.

Langtímaáætlun sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili var afskaplega gott innlegg í þá miklu framtíðarsýn sem menn hafa á uppbyggingu vegakerfisins og ég held að þar hafi verið markað alveg gríðarlega mikilvægt skref, bæði í að sjá fram í tímann og eins í vinnubrögðum því að það er að sjálfsögðu afskaplega þýðingarmikið að geta horft fram í tímann og áttað sig á því hvaða stórframkvæmdir eru inni og þannig er líka hægt að koma inn mjög stórum framkvæmdum og sjá fyrir endann á þeim, sjá verklok sem oft getur reynst erfitt í stuttum vegáætlunum eins og hafa verið, í fjögurra eða fimm ára vegáætlunum.

Í þeirri langtímaáætlun sem gerð var og við samþykktum í samgn. og hér í þinginu fyrir kosningar var m.a. nýtt verkefni sem var tvöföldun Reykjanesbrautar og var að okkar áliti vendipunkturinn í því máli og í sjálfu sér mikið upphaf að framkvæmd sem búið var að bíða eftir og berjast fyrir í mjög langan tíma. Í áætluninni var gert ráð fyrir því, eins og fólk veit almennt, að upphaf þeirrar áætlunar og upphaf þess verks mundi verða á síðasta ári og það fór svo að á síðasta ári var veitt í þetta verkefni 21 millj. í undirbúning og á þessu ári er gert ráð fyrir að sambærileg upphæð fari í tvöföldun Reykjanesbrautar og 60 á næsta ári, eða samtals um 100 millj. kr. Samkvæmt þessari áætlun ætti á þessu og næsta ári því að vera til fjármagn til að undirbúa þá framkvæmd til útboðs og gera umhverfismat sem þarf hugsanlega að fylgja. Það er samt af hálfu Vegagerðarinnar ekki talin ástæða til að ætla að umhverfismat þurfi í raun á brautina sjálfa heldur einungis á mislæg gatnamót sem verða á tveimur eða þremur stöðum á leiðinni. Á næstu tveimur árum eigum við að geta lokið þeim undirbúningi fyrir þessa framkvæmd sem á þarf að halda og útboð geti farið fram árið 2002.

Það hefur verið mikið kappsmál allra sem nálægt þessu máli hafa komið og þekkja til aðstæðna á umræddri leið, að þó svo að langtímaáætlun geri ráð fyrir að verkinu ljúki ekki fyrr en 2010, að fara mætti það hratt af stað að við gætum boðið verkið út í einu lagi. Komið hafa fram hugmyndir um að við mundum byrja framkvæmdir með 400--500 millj. kr. útboði árið 2002--2003 en við höfum lagt á það mikla áherslu að við það mætti bæta öllu verkinu með því að taka inn í fyrirtæki sem mundu fjármagna dæmið og þetta yrði síðan greitt miðað við þá langtímaáætlun sem fyrir liggur. Spurningin er sú hvort hagkvæmara sé að gera það heldur en að Vegagerðin taki sjálf lán og framkvæmi þetta. Það er út af fyrir sig aukaatriði. Aðalatriðið er að ná fram þessum verkþætti þannig að útboðið verði allt gert á sama tíma.

Það er sem sagt til umræðu núna að vinna þetta með þessum hætti og ég á von á því að í þingmannahópnum, ég hef ekki heyrt annað, sé algjör samstaða um að reyna þessa leið. Allir sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og ég hygg Suðurnesjamenn allir eru einhuga um að þetta sé stærsta og merkilegasta málið í vegagerð sem við vinnum að og er algjört forgangsverkefni af okkar hálfu.

Það þarf að sjálfsögðu ekkert að tíunda mjög mörg rök í þessu sambandi en við sem fylgjumst með vitum að aukin umferð á þessu svæði er gríðarleg og hefur verið um 10% á ári og í dag fara um sjö þúsund bílar um þessa braut hvern einasta dag alla daga ársins. Aukningin er sem sagt um 10% á ári sem þýðir að eftir fögur ár munu yfir tíu þúsund bílar fara þessa braut á hverjum einasta degi. Það er mjög nærri þeim mörkum sem sett eru í Bandaríkjunum til að tvöfalda slíkar brautir, að akreinar verði fjórar, tvær í hvora áttina, og miðað við þær aðstæður sem hér eru þá eru þau mörk mjög nærri því sem Bandaríkjamenn hafa sett sér og Vegagerðin hefur notað sem viðmiðunarmörk af sinni hálfu.

[12:00]

Ég lít svo á að það að tvöfalda Reykjanesbrautina á þessum tíma sé álíka mikið hagsmunamál og Hvalfjarðargöngin hafa verið fyrir Vestlendinga, Akranes og aðra, í öryggismálum og samgöngubótum sem allir eru sammála um að eru vel heppnaðar.

Herra forseti. Að sjálfsögðu má nefna mörg önnur mál í þessu sambandi en tíminn er mjög naumur. Með nýju kjördæmi er Suðurstrandarvegur einn af þeim vegaköflum sem verða forgangsverkefni nýrrar kjördæmaskipunar. Við munum öll sameinast um að vinna að því þegar þar að kemur.

Ég vil að sjálfsögðu taka undir væntingar landsbyggðarmanna með jarðgöng sem eru mjög brýn. Að mínu áliti munu þau fjármagnast með öðrum hætti.