Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 12:18:06 (4455)

2000-02-17 12:18:06# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GAK
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sú áætlun í vegamálum til fimm ára sem við ræðum hér er þörf og merkileg. Það er gott að vinna málin eins og hér er lagt upp með, að hafa nokkra framtíðarsýn.

Í dag var kynnt hér ný skýrsla um jarðgangaáætlun sem er hið merkilegasta rit og ber að þakka hversu vel það er unnið. Uppbygging á vegakerfi landsins er einfaldlega ein af meginstoðum þess að viðhalda og efla byggð í landinu. Við höfum á undanförnum áratugum bætt vegakerfið mikið og ber að þakka það sem vel hefur verið gert. En við eigum hins vegar mikið ógert í þessu landi við að bæta samgöngur, með betri vegum og einkanlega að mínu viti í jarðgöngum þar sem þau eiga við.

Það verður auðvitað að gera kröfu um að fjármagn sé notað skynsamlega og í réttri forgangsröð í jafnveigamiklum og kostnaðarsömum málum og jarðgangagerð er. Ég lít hins vegar þannig á að til framtíðar litið, hugsi maður hálfa öld fram í tímann, beri okkur að huga að þessum verkefnum með langtímasjónarmið í huga. Ég tel að menn eigi að meta verkefni þannig að framtíðarlausn varðandi fjallvegi, sérstaklega á snjóþungum svæðum, sé að í flestum tilvikum ættu þar að vera jarðgöng þar sem því verður við komið með skynsamlegum hætti. Ég vil frekar bíða í lengri tíma eftir varanlegri lausn heldur en því að standa að skammtímauppbyggingu yfir fjallvegi sem síðan eru meira og minna lokaðir.

Ég kem frá Vestfjörðum þar sem búið er að gera jarðgöng á milli Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Ísafjarðar, undir Breiðadals- og Botnsheiðar. Þar var stigið mikið og merkilegt skref sem mér finnst við öll eigum að geta dregið nokkurn lærdóm af. Gert var ráð fyrir því að umferð um jarðgöngin mundi aukast um 60% frá því sem áður var. Hún hefur hins vegar aukist um 120%. Það sýnir okkur auðvitað að þegar samgöngur batna þá aukast samskipti fólks og fólk fer að nýta þjónustu og atvinnu milli staða þar sem áður var einangrun.

Sjálfsagt vita allir að fjallvegir á þessum heiðum Vestfjarða, Breiðadals- og Botnsheiðar, voru lokaðir um 60 daga á ári yfir Breiðadalsheiði og um 50 daga á ári yfir Botnsheiði til Súgandafjarðar, þó var reynt að halda leiðunum opnum með tilheyrandi snjómokstri og kostnaði. Þannig hagar auðvitað til víða á landinu. Víða mætti ná svipuðum árangri og náð var á Vestfjörðum með jarðgangagerðinni. Ég fagna því að búið sé að setja málin hér í ákveðna forgangsröð sem hæstv. samgrh. lýsti úr þessum ræðustól í morgun og tek undir að eftir henni verði unnið.

Ég vil benda á að þegar að Vestfjörðum kemur á nýjan leik þá verði vinnubrögðin álíka og samgrh. lýsti hér í morgun, að bjóða í einu út fleiri áfanga en einn. Það eru nokkrir fjallvegir á Vestfjörðum sem eru til mikilla trafala í samgöngum. Þar má t.d. sérstaklega benda á Klettsháls á Barðaströnd sem lokar vestursvæðinu inn á þjóðvegakerfi landsins. Það má benda á Eyrarfjall í Ísafjarðardjúpi og vafalaust fleiri staði en auðvitað munum við ekki velja þá leið að gera jarðgöng undir hvert einasta fjall. Sums staðar hefur þegar verið lagt í vegagerð sem er varanleg að því leyti að búið er að leggja vegi með ströndinni þó að það sé mun meiri vegalengd en ef jarðgöng yrðu gerð.

Ég vil að lokum lýsa þeirri skoðun minni að ég tel til fyrirmyndar hvernig staðið er að skýrslu um jarðgangagerð sem hér var lögð fram í morgun. Ég fagna því að inn í þá skýrslu eru komnar hugmyndir um hvar við gætum gert merka áfanga og notadrjúga í samgöngumálum með frekari jarðgangagerð. Fyrir mína parta tel ég að betra sé að bíða einhver ár og fá varanlega lausn en að halda áfram að berjast yfir snjóþung fjöllin.