Fátækt á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 13:52:25 (4468)

2000-02-17 13:52:25# 125. lþ. 66.94 fundur 324#B fátækt á Íslandi# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda, Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrir að færa þetta mál inn á Alþingi. Við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda sem hefur nú verið staðfestur með enn einni skýrslunni.

Ég held að við eigum að reyna að fyrirgefa hæstv. forsrh. málflutning hans. Þar var komin holdi klædd brauðmolahagfræði þeirra Reagans og Thatcher að það kunni að vera misskipting í þjóðfélaginu, að hún sé vaxandi, að hér sé fátækt, en viti menn, hinir fátæku njóta molanna sem hrjóta af borðum hinna ríku. Þetta er málflutningur sem er ekki sæmandi á Íslandi.

Hið jákvæða við þessa skýrslu er að ekki er látið sitja við það eitt að benda á vandann heldur er hann einnig skilgreindur og vakin athygli á hvar þurfi að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Í ljós kemur að mörg þingmál sem bíða afgreiðslu taka á slíkum vanda. Ég nefni vanda innflytjenda. Fram kemur að við stöndum frammi fyrir því að hér myndist undirmálshópur ef ekki er lögð sérstök rækt við að hlúa að börnum innflytjenda í skólum og í samfélaginu almennt og fyrir þinginu liggur einmitt mál um þetta efni.

Þá kemur fram sú ömurlega staðreynd að geðfatlaðir er sá hópur sjúklinga sem ekki aðeins þarf að bera erfiðan sjúkdóm heldur búa geðsjúkir öðrum fremur við örbirgð. Á þinginu hafa ítrekað verið flutt þingmál til að styrkja og bæta stöðu geðsjúkra. Áfram mætti minna á þá staðreynd að þeir sem hafa framfæri af greiðslum almannatryggingakerfisins þurfa alfarið að treysta á greiðslur þaðan sér til framfæris, búa við skarðan hlut, hlut sem hefur ekki fylgt kjaraþróun sem aðrir þjóðfélagsþegnar hafa notið á undanförnum missirum og árum. Hér þurfa að koma til sögunnar ný vinnubrögð, róttæk breyting á því fyrirkomulagi sem við búum nú við. Ég vil gera það að tillögu minni að í stað þeirrar nefndar sem hv. þm. Hjálmar Jónsson lagði til áðan verði gengið til formlegra samninga við Öryrkjabandalagið, hagsmunasamtök öryrkja og samtök aldraðra til að ráða bót á þessari meinsemd.