Fátækt á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 13:54:47 (4469)

2000-02-17 13:54:47# 125. lþ. 66.94 fundur 324#B fátækt á Íslandi# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Fátækt er býsna vandmeðfarið hugtak og hægt er að skilgreina það á ýmsan hátt. Við höfum mjög iðulega skilgreint það svo að þeir sem hefðu ekki hálfar meðaltekjur í þjóðfélaginu teldust til þessa hóps. Könnun Rauða krossins er allrar virðingar verð en það má ekki taka hana sem einhverja hávísindalega úttekt og það er nokkuð til í því að þetta er fyrst og fremst skoðanakönnun.

Ástandið hefur yfirleitt batnað og yfir því ber að gleðjast. Kaupmátturinn hefur stóraukist en það er óneitanlega þröngt í búi hjá sumum. Nýleg könnun sýnir t.d. að 40% bænda eru undir hálfum meðaltekjum í þjóðfélaginu og það er staðreynd sem óhjákvæmilegt er að hafa í huga og það liggur fyrir að hluti af unglingum í sveitum fer ekki í framhaldsnám af efnahagsástæðum. Það er einmitt ástæða til að minna á þetta nú þegar í undirbúningi er nýr samningur við sauðfjárbændur.

Félmrn. fylgist með þessari þróun. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna, sem starfar á okkar vegum með samstarfsverkefni við aðra, hefur aðstoðað um eða yfir 2.000 fjölskyldur og hefur meiri hluti þeirra náð tökum á fjármálum sínum. Það er töluverð breyting á skuldsetningu. Yngra fólk er að skuldsetja sig meira en áður var. Við erum að fara í samstarf við Rauða krossinn um framleiðsluskóla að danskri fyrirmynd. Atvinnuleysið er sem betur fer horfið. Ásókn í fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur minnkað, ráðuneytið gengur eftir því að sveitarfélögin sinni skyldum sínum þar um. Íbúðareigendum gengur miklu betur að standa í skilum og nauðungaruppboðum á íbúðarhúsnæði hefur stórfækkað. Við vinnum að markvissri fjölskyldustefnu og stóraukið fjármagn fer til fíkniefnavarna. Við þurfum að taka á málefnum innflytjenda og það er í undirbúningi og stórátak hefur verið gert í fjölgun leiguíbúða og að aðstoða fólk við að komast í eigið húsnæði.