Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 14:22:27 (4479)

2000-02-17 14:22:27# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, HErl
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Helga A. Erlingsdóttir:

Virðulegi forseti. Sem landsbyggðarkona vil ég leggja áherslu á að það verður að leggja meira fé en gert hefur verið undanfarið í safn- og tengivegi. Sáralítið hefur verið veitt til þeirra hvað varðar viðhald og meiri endurbyggingu og nýbyggingar. Oft er talað um það í byggðarlagi mínu, norður í Þingeyjarsýslu, að það verði að byggja vegina upp úr snjónum. Það hve margir af vegum um dreifbýli eru lágir verður til þess að kostnaður við snjómokstur á snjóþungum vetrum er gífurlegur bæði fyrir sveitarfélögin og ríkið. Þessir vegir eru sjaldnast klæddir bundnu slitlagi, aurbleyta er áberandi vor og haust, vegirnir eru ósléttir, holóttir og þar er mikil lausamöl. Þetta skapar slysahættu, ending bíla er styttri en almennt er og viðhald þeirra miklu meira en hinna sem ekið er um bundið slitlag. Þá er ljóst að gera verður sérstakt átak í að fækka einbreiðum brúm á vegum landsins. Þær eru miklar slysagildrur og eru sérstaklega hættulegar þeim vegfarendum sem eru ekki staðkunnugir. Það á ekki síst við um erlenda ferðamenn sem ferðast á einkabílum um landið en þeim hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Betri samgöngur eru víða forsenda sameiningar sveitarfélaga. Þær eru líka nauðsynlegar til að efla samstarf milli sveitarfélaga og stofnana og efla ýmiss konar þjónustu á landsbyggðinni. Góðar samgöngur eru algjör forsenda þess að okkur takist að koma á einhverju jafnvægi í byggðaþróun á landinu. Því er mikilvægt að þessi málaflokkur njóti nauðsynlegra fjárveitinga og sé ekki látinn líða fyrir staðbundna þenslu á suðvesturhorninu.