Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 14:25:05 (4480)

2000-02-17 14:25:05# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, JB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fagna framkominni skýrslu um jarðgangaáætlun. Það var mjög tímabært að hún kæmi. Síðustu jarðgöngin sem ríkið hefur staðið fyrir voru jarðgöngin á Vestfjörðum og þeim lauk 1996. Jarðgöngin undir Hvalfjörð voru ekki fjármögnuð beint af ríkinu og skoðast því ekki ríkisframkvæmd. Síðan þá, 1996, hefur ekkert verið unnið að nýrri jarðgangagerð á Íslandi af hálfu hins opinbera og þarna hafa farið, herra forseti, fjögur ár án þess að á því væri tekið. Jarðgöng eru víða ein mikilvægasta samgöngubót og til þess að rjúfa einangrun. Það bar að halda áfram á þeirri braut sem þá hafði verið mörkuð. Það er meira að segja svo, herra forseti, að það hefur ekki heldur verið varið nægjanlegu fjármagni til að rannsaka og undirbúa næstu jarðgangagerð. Þegar við stöndum frammi fyrir þessari ágætu jarðgangaáætlun þá er nú svo háttað að í henni eru engar tímasetningar, engar tímaáætlanir. Það er þó viðurkennt að til að halda megi áfram í jarðgangaáætluninni þurfi að fara í undirbúningsrannsóknir og hönnun og ýmsa aðra vinnu og sú vinna mun kosta nokkur hundruð millj. kr. en á fjárlögum þessa árs er ekkert fjármagn til að fara í þá vinnu. Hér er því, herra forseti, allt of mikið ábyrgðarleysi á ferðinni. Ef sá metnaður hefði verið fyrir hendi sem hefði þurft, og við stæðum ekki frammi fyrir þeirri staðreynd að ekkert var unnið í jarðgangagerð á árunum 1996--1999 þá hefðum við a.m.k. samþykkt á fjárlögum þessa árs fjármagn til að ráðast í nægilegar undirbúningsrannsóknir og hönnun til þess að hægt væri að setja allt á fullt þegar jarðgangaáætlun liggur fyrir. Þetta, herra forseti, held ég að verði að draga fram. Ekki er nægilegt að setja fram góða áætlun, henni þarf að fylgja verk. Ég treysti því reyndar og vona að hæstv. samgrh., sem er mikill verkmaður, láti okkur ekki standa lengi frammi fyrir ótímasettri áætlun um jarðgöng.

Ég fagna þeim áhersluatriðum sem dregin eru fram um hver séu næstu verkefni í jarðgangagerð, bæði milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, og eins á Austfjörðum og á Vestfjörðum. Ég hefði þó viljað, herra forseti, að það yrði skoðað og verður væntanlega skoðað í samgn. hvort ekki væri rétt líka að setja inn óskalistann á bls. 4, þar sem talað er um jarðgangaverkefni sem Vegagerðin telur að eigi að koma til skoðunar og ákvörðunar síðar, allt upp í tölusett 21 verkefni, og gætu þar ábyggilega fleiri bætt inn. En ég vil nefna hér, herra forseti, jarðgöng frá Siglufirði og inn í Skagafjörð eða inn í Fljót. Sá vegur sem liggur nú til Siglufjarðar úr Skagafirði er engan veginn örugg leið og verður oft ófær og til framtíðar mundi sú tenging stækka þetta hérað til austurs og vesturs. Ég teldi því æskilegt að hún kæmi í þeirri langtímaáætlun sem þarna er verið að leggja upp en ég er fyllilega ánægður með það að áhersla skuli vera lögð á göngin frá Siglufirði til Ólafsfjarðar.

[14:30]

Ég vil líka, herra forseti, víkja að því að fjármagn til samgöngumála lýtur forgangsröðun og ég lít svo á að það fjármagn sem varið er á samgönguáætlun sé fyrst og fremst lágmarksfjárveiting sem hinir föstu tekjustofnar standa undir þó svo þeir hafi stundum liðið fyrir skerðingu. Ég tel því, herra forseti, að samgöngur á þessu svæði eins og hér hefur verið minnst á, þ.e. tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, sé líka afar brýnt verkefni þó svo að lagt hafi verið til að þeirri framkvæmd verði frestað til þess að draga úr þenslu á höfuðborgarsvæðinu. En mætti ekki, herra forseti, kanna hvort ekki væru einhverjar aðrar framkvæmdir á þessu svæði sem hægt væri að fresta frekar, því þetta er spurning um forgangsröðun á fjármagni og verkefnum. Er endilega nauðsyn að ráðast í milljarðaframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli við stækkun á Leifsstöð til þess að tvöfalda aðkomu útlendinga til landsins og gera þar tvöfalt kerfi? Er það nauðsynlegt? Væri ekki nær, herra forseti, að breikka Reykjanesbrautina? Og svona má áfram telja, þetta er val, þó svo ég styðji og meti það að hið opinbera reyni að draga úr framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.

Það er annað sem ég vildi líka draga hérna inn í umræðuna þó að það sé ekki stórt mál. Það er þegar býli fara úr ábúð eða byggð breytist, þá geta vegir breytt um heiti, tengivegir geta breyst í safnvegi og safnvegir í einkavegi, landsvegi eða styrkvegi. Þetta getur komið sér afar illa og er kannski ekki vel rökstutt. Ég nefni dæmi í Skagafirði. Þar fór einn bær í miðjum Skagafirði, Krossanes, úr fastri ábúð, en rétt þar hjá er graskögglaverksmiðjan í Vallhólma sem núna er fóðurmiðstöð fyrir Skagafjörð og reyndar stærri hluta landsins og mikil og öflug starfsemi þar rekin. Við það að Krossanes fór úr ábúð fóru vegasamgöngur við þetta mikla og merka atvinnufyrirtæki úr flokki reglubundinna vega sem hið opinbera ber ábyrgð á og telst annað hvort einkavegur eða þá að sveitarfélagið verður að taka hann að sér. Þannig háttar til víðar og ég tel, herra forseti, að þetta sé atriði sem eigi að skoða og fylgjast með. Það er allt í lagi að hækka vegaflokka í virðingarröðinni, en það er alltaf viðkvæmt þegar vegir eru lækkaðir í virðingarröð og afleiðingar geta verið margar og ófyrirsjáanlegar.