Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:04:39 (4494)

2000-02-17 15:04:39# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að einhvers staðar verður fjármagnið að koma. Við höfum ráðstafað vegafé með öðrum hætti til að byggja upp samgöngur á landi, sem eru afskaplega nauðsynlegar framkvæmdir. Þarna er leið til að fjármagna jarðgangaframkvæmdir, þ.e. að selja þau ágætu ríkisfyrirtæki sem við eigum og sem hafa mikið verðgildi og geta þess vegna farið í þessar arðbæru samgönguframkvæmdir.

Ég held að ljóst sé og við þurfum svo sem ekkert að velkjast í vafa um það, dæmin sýna það að þau fyrirtæki sem við höfum selt eru betur komin í einkaeigu en í ríkisrekstri. Það er því alveg einboðið að sú leið er góð, að við tökum ríkisreksturinn og breytum honum í einkarekstur en höfum jafnframt þá peninga til þess að standa að slíkum verkefnum, arðbærum verkefnum sem hafa mikil áhrif fyrir byggðirnar í landinu og mikil áhrif fyrir þjóðfélagið í heild.