Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:06:08 (4495)

2000-02-17 15:06:08# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að rétt sé að ríkið selji fyrirtæki sín í atvinnurekstri og fyrirtæki sem ekki eru brýn þjónustufyrirtæki. Það er bara allt annað mál, herra forseti, og það er rangt að ætla hér að stilla þessu upp samhliða að ekki megi ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir, ákveðnar framkvæmdir á vegum ríkisins öðruvísi en það sé þá tengt saman.

Það væri fróðlegt að vita hvar peningarnir eru sem komu inn á sl. ári fyrir sölu á bönkunum. En það eru til peningar sem hafa runnið í ríkissjóð og það er ákvörðun af hálfu Alþingis hvaða fjármagn er veitt til hinna einstöku framkvæmda en það þarf ekki endilega að sérmerkja það sölu á ríkisfyrirtækjum. Mér finnst þetta vera niðurlægjandi framsetning á nauðsynlegum framkvæmdum á vegum ríkisins, ekki síst gagnvart íbúum landsins.