Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:07:19 (4496)

2000-02-17 15:07:19# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta hefur náttúrlega ekki nokkurn skapaðan hlut með niðurlægingu að gera. Þetta hefur með það að gera hvernig við ætlum að reka ríkið. Þau fyrirtæki sem við höfum selt hafa farið í það að borga niður skuldir ríkissjóðs sem hefur aftur á móti sparað mikið í fjármagnskostnaði.

Tökum sem dæmi Landssímann sem er ágætis fyrirtæki og alveg bráðnauðsynlegt að selja því að það er fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Það eru náttúrlega ekki nokkur einustu rök fyrir því að ríkið sé að reka samkeppnisfyrirtæki og skekkja þar með samkeppnisstöðuna. En aftur á móti er þarna um fyrirtæki að ræða sem er eins konar samgöngufyrirtæki varðandi fjarskiptin og ákaflega gott að nýta það fé, nákvæmlega það fé til að fara í önnur samgöngumannvirki eins og jarðgangaframkvæmdir. (Gripið fram í: Eru framsóknarmenn samþykkir því?) Ég reikna alveg með að framsóknarmenn séu sammála því, af því að kallað var héðan utan úr sal, vegna þess að á það er minnst í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.