Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:33:40 (4503)

2000-02-17 15:33:40# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, LB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í dag hefur verið flutt mikið mál um það sem kallað er till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 2000--2004 þar sem birtist einhvers konar forgangslisti eða gjafalisti ríkisstjórnarinnar hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að framkvæma næstu árin.

Sennilega eru fá verkefni ef nokkur sem eru eins mikið innlegg í byggðaumræðuna og þá umræðu sem fram hefur farið og getur haft áhrif á þá þróun sem á sér nú stað á landsbyggðinni en að samgöngur almennt séu bættar. Ég held að ég geti sagt fullum fetum, virðulegi forseti, að líklega eru samgöngur og vegakerfi hvergi í Vestur-Evrópu í jafnmiklum lamasessi og á Íslandi. Ég held að hvergi í Vestur-Evrópu séu almenningssamgöngur í jafnmiklum ógöngum og á Íslandi.

Virðulegi forseti. Ég held þótt við fögnum því náttúrlega sem vel er gert í þessum málum að við getum sagt með sanni að við ættum eiginlega bara að skammast okkar fyrir það hvernig þessum málum er fyrir komið. Ef ég skil þessa þáltill. um vegáætlun rétt er ætlunin að nokkurn veginn verði búið að malbika þjóðveg 1 árið 2006. Þá verður þjóðvegur 1 á Íslandi loksins fullgerður. Ekki þykir mér mikil reisn yfir þessu. Mér finnst því kannski ekki mikil ástæða til að berja sér á brjóst hvað þetta varðar. Þess í stað held ég að við ættum að setja meira fé í þetta verkefni og víða mætti skera niður því eitt er víst að það eru ekki framkvæmdir í vegamálum sem eru að skapa alla þá þenslu sem er í landinu. Ef ég man þessar tölur rétt er landsframleiðslan á Íslandi u.þ.b. 500 milljarðar og til þess að slá á þenslu hefur ríkisstjórnin ákveðið að skera 585 milljónir niður af vegafé. Það er nú framlag ríkisstjórnarinnar í að slá á þenslu. Þetta er náttúrlega sýndarmennska og varla hægt að ræða þessar tillögur alvarlega, þær eru þess eðlis. En ég tek fram að ég fagna öllu því sem vel er gert og hef lýst því oft áður að ég er almennt fylgjandi mannvirkjagerð í vegaframkvæmdum og fagna öllum þeim verkum sem lokið er við og eru til þess fallin að bæta samgöngur á Íslandi. (Gripið fram í: Og helst fyrir austan.) Ekki er það verra, virðulegi forseti, að það skuli gerast í Austurlandskjördæmi eins og frammíkallandi tekur hér fram.

Það eru nokkur atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi ræða. Hæstv. samgrh. hefur nýlega látið vinna skýrslu sem má finna á heimasíðu samgrn. Í niðurstöðum og tillögum skýrslunnar, sem fjallar um almenningssamgöngur, kemur fram að ætlunin sé, sem ég held að sé eitthvað sem við Íslendingar þurfum að taka til gagngerrar endurskoðunar enda lítill sómi að, með leyfi virðulegs forseta:

,,Endurgreiðsla þungaskatts verði lögð niður en þess í stað kaupi hið opinbera tiltekna, skilgreinda þjónustu áætlunarbíla af fyrirtækjum eða einstaklingum. Samningar um slíka þjónustu verði gerðir til 3--5 ára.``

Ég fagna þeirri viðleitni sem fram kemur í skýrslunni sem hefur verið unnin til þess að bæta almenningssamgöngur í landinu en ég vil leggja fram þá spurningu, virðulegi forseti: Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta það til að mynda að almenningssamgöngur, SVR og aðrir slíkir á höfuðborgarsvæðinu, missa af þessum peningum? Ef ég veit rétt eru það u.þ.b. 70 milljónir sem felldar eru niður hvað varðar þungaskatts- eða ætlaðar þungaskattsgreiðslur þessa fyrirtækis og ef ætlunin er að leggja það á fyrirtækið, virðulegi forseti, er það nú ekki mikið framlag til almenningssamgangna. Vel má vera að svo sé ekki og ég vænti þess að hæstv. samgrh. svari því á eftir. Það væri nú vel ef ætlunin er ekki að breyta þessu.

Annað sem ég vildi nefna í þessu samhengi er væntanlegt útboð á Herjólfi, ferjunni sem gengur á milli lands og Eyja. Ég tel að það sé ekki gott innlegg í þá umræðu sem er á landsbyggðinni og þá þróun sem þar á sér stað að menn séu að opna á óvissu eins og þá að bjóða út flutninga eins og flutninga Herjólfs sökum þess að landsbyggðin á í mikilli varnarbaráttu sem gerir það að verkum að sjálfstraust fólks þar er kannski minna en ella. Þess vegna eru hugmyndir af þessum toga til þess fallnar að menn fara að óttast meira en áður um byggðarlag sitt og óvissa eins og þessi við þær aðstæður sem nú ríkja er af hinu verra. Röksemdafærslan sem ég hef heyrt er sú að það eigi að reyna að spara nokkrar krónur þarna en ég held að áhrif þess séu miklu mun verri því að maður hefur heyrt það á þeirri umræðu sem fram hefur farið vegna þess að menn óttast mjög verði þetta boðið út og þetta er ekki til þess fallið að styrkja landsbyggðina sem upplifir það að vegakerfið, eins og Herjólfur er í raun og veru, sé sett í uppnám.

Ef röksemdafærslan um að einhver tilskipun Evrópusambandsins geri kröfur til þessa erum við náttúrlega búin að brjóta hana í mörg ár og ég get ekki ímyndað mér að það skaði nokkuð þó við höldum áfram að brjóta hana því að við höfum þegar brotið þær reglur svo lengi. Ég held satt best að segja að (Gripið fram í: Það eru nú fleiri samkeppnisreglur sem má brjóta.) að þær reglur séu einfaldlega ekki til en verði þetta boðið út þá skuli bjóða það á Evrópska efnahagssvæðinu. En það er engin kvöð til þess að bjóða það út. (Gripið fram í.) Nei, virðulegi forseti. (Gripið fram í: ... í samkeppnislögum.)

Mér þykir umræðan heldur hafa farið út um víðan völl en tek fram vegna frammíkalls hæstv. samgrh. að tilskipanir Evrópusambandsins eru ekki í samkeppnislögunum.

Tíminn er fljótur að líða, virðulegur forseti, í þessari þó merku umræðu sem fer fram. En mig langaði einnig að beina þeirri spurningu til hæstv. samgrh. vegna fylgiskjals sem heitir Vegtenging milli lands og Eyja þar sem fjallað er um hugmyndir um að gera jarðgöng til Vestmannaeyja hvort sú skýrsla sem liggur fyrir slái í raun og veru út af borðinu hugmyndir um jarðgöng. Ég fæ ekki betur séð en að í niðurstöðum skýrslunnar fái þessi hugmynd mjög harkalega útreið. Ég beini því til hæstv. samgrh. hvort hann sé með þessu að slá hugmyndir um jarðgöng til Vestmannaeyja út af borðinu.