Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:42:12 (4504)

2000-02-17 15:42:12# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er ungur og vaskur maður og tekur oft sterkt til orða og kveður fast að enda orðaður við formennsku í Samfylkingunni og undrar það mig ekkert því þetta er hinn vænsti maður. Mér fannst hann hins vegar í þessari ræðu kveða allt of fast að orði þegar hann sagði að hvergi í Evrópu væri vegakerfi í verra ástandi en á Íslandi og við ættum að skammast okkar fyrir vegakerfið.

Ég er ekki sammála þessu. Við verðum að líta aðeins á það að hér erum við 270 þúsund manns í risastóru landi og að ætla að fara að bera það saman við einhverjar þjóðir sem eru mörgum tugum sinnum fjölmennari en við og búa kannski í minna landi er auðvitað ekkert samanburðarhæft. Okkur í þessu litla landi, þessum fáu sálum hefur tekist að leggja 12 þús. km langt vegakerfi, þar af 3.600 km með bundnu slitlagi og eykst það ár frá ári. Ég segi bara að þetta er ekki til að skammast sín fyrir.

Ég er hins vegar alveg sammála því að við þurfum að gera betur og það eru ótal verkefni sem kalla að eins og kemur mjög skýrt fram í þeirri ágætu vegáætlun og jarðgangaáætlun sem hæstv. samgrh. lagði fyrir þingið og er til fyrirmyndar. Það eru mörg verkefni sem bíða. Við verðum að athuga úr hverju við höfum að spila. Heildarfjárlög ríkisins eru um 200 milljarðar á ári. Við erum að setja 6, 8 eða 9 milljarða til samgöngumála af því. Það er auðvelt að koma og berja sér á brjóst og segja að við ættum að setja miklu meira en menn verða þá að segja hvar eigum við að spara á móti.

Ég segi bara, af því mér er hlýtt til hv. þm., ef hann ætlar sér frama í Samfylkingunni og ætlar sé þar til formennsku þá má hann ekki tala með þessum hætti um stórmál eins og vegamál á Íslandi.