Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:44:05 (4505)

2000-02-17 15:44:05# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð og tek þær ábendingar til greina sem hér hafa komið fram.

En ég lagði áherslu á það í ræðu minni og þá sérstaklega þegar ég orðaði það svo að við ættum að skammast okkar, að það væri þó einkum tvennt. Það er í fyrsta lagi að við höfum ekki einu sinni lokið við að malbika þjóðveg 1 sem er alveg einstætt í Vestur-Evrópu að þjóðvegur 1 skuli ekki vera malbikaður. Í öðru lagi sagði ég að almenningssamgöngur væru ekki með þeim hætti sem þær ættu að vera. Það eru þessi tvö atriði sem ég dreg fram.

[15:45]

Auðvitað er það líka alveg rétt hjá hv. þm. að þetta er stórt og mikið land. Kannski má segja sem svo að okkur vanti fólk til að framkvæma allt það sem við vildum framkvæma. En þetta tvennt hefði ég talið að við ættum að leggja miklu meiri áherslu á og víða er hægt að skera niður. Ég bendi bara á útgjaldaaukningu í ráðuneytinu sjálfu. Það má örugglega skera eitthvað niður þar. Það er víða hægt að finna holur ef menn leggja á það áherslu. Einnig má nefna að ekki hafa allir tekjustofnar verið nýttir sem nýta á í vegagerð. Það má víða finna holur þó ekki væri nema til að malbika blessaðan hringveginn.