Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:45:38 (4506)

2000-02-17 15:45:38# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Í þeirri góðu umræðu sem farið hefur fram í dag hef ég saknað þess að ekki hefur verið fjallað um vegamál á höfuðborgarsvæðinu að neinu ráði. Margir hv. landsbyggðarþingmenn hafa tekið til máls og talað fyrir mikilvægum samgöngubótum á landsbyggðinni en mig langaði að fjalla aðeins um vegamál í höfuðborginni.

Í byrjun ársins samþykkti stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ályktun. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í þá ályktun. Þessi ályktun kemur í kjölfar ákvörðunar Alþingis um niðurskurð á fjárveitingum til vegaframkvæmda en þar segir:

,,Í öngþveiti stefnir ef nauðsynlegum framkvæmdum í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu er stöðugt frestað og flytja á fjármagn sem þar myndast af umferð út í dreifbýlið. Frestun framkvæmda mun hafa í för með sér aukna hættu á slysum og óhöppum í umferðinni með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga og samfélagið. Í forsendum að svæðaskipulagi á höfuðborgarsvæðinu sem nú er verið að vinna að er búist við 50% aukningu í bílaumferð eftir 20 ár.``

Þetta segir sem sagt í ályktun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Á undanförnum árum hefur verið töluverð aukning í bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu. Um það hefur verið rætt frá árinu 1994, er hátíð var haldin á Þingvöllum en þá var töluverð bílaumferð. Frá 1994 til dagsins í dag hefur orðið 40% aukning á bílaeign eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Á síðustu tveimur árum hefur orðið 12% aukning í umferð hér á höfuðborgarsvæðinu.

Við sem búum hér í höfuðborginni þekkjum að umferðaróhöppum hefur fjölgað og slysum jafnframt vegna aukins álags á umferðarkerfi svæðisins. Hins vegar höfum við líka fylgst með því að þar sem gerðar hafa verið samgöngubætur hefur dregið verulega úr slysum, t.d. á gatnamótum Réttarholtsvegar og Miklubrautar en þau voru mikil slysagatnamót fyrir þann tíma. Það er ljóst að fjárfesting í vegabótum á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst í Reykjavík er arðbær og mun á stuttum tíma skila sér til samfélagsins, ekki síst í bættri heilsu landsmanna. Auðvitað er hvert og eitt slys einu slysi of mikið og þau hafa áhrif á hagi þeirra sem í slysunum lenda.

Á árunum 1980--1990 fengu Reykjavík og Reykjanessvæðið undir 15% af fjárveitingu til nýframkvæmda í vegamálum í landinu þrátt fyrir mikla þörf fyrir fjármagn til vegaframkvæmda og þrátt fyrir að 70% af tekjum í ríkissjóð af bílum og bílaumferð komi af svæðinu. Hlutur höfuðborgarsvæðisins hefur verið grátlega lítill og það sést í vegamálum í borginni. Höfuðborgin hefur sem sagt dregist aftur úr.

Á fjárlögum ársins 2000 var tekin ákvörðun í þinginu um að skera niður fé til vegaframkvæmda um tæpar 600 millj. sem aðallega mun koma niður á Reykjavíkursvæðinu. Af þessum 600 millj. verða sennilega í kringum 500 millj. teknar af höfuðborgarsvæðinu og þetta þýðir milli 40 og 50% skerðingu á fjármagni til vegagerðar á þessu svæði. Við getum þannig ekki gert nema um það bil 50% af því sem áætlað var.

Það er ljóst að mikil þörf er á Reykjavíkursvæðinu til að gera ýmsar samgöngubætur. Ég vil nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi hefur verið áformað að bæta umferðarmannvirki út úr Reykjavík. Þar hefur gerð mislægra gatnamóta á Vesturlandsvegi við Víkurveg og Reynisvatnsveg sérstaklega verið skoðuð. Það er áformað að byrja á því í haust. Það er mjög mikilvægt því við vitum að þetta er ein af tveimur aðalumferðaræðum inn í Grafarvoginn. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve umferðin úr og í Grafarvoginn hefur verið erfið. Þetta er náttúrlega einnig aðalumferðaræðin til Mosfellsbæjar og til alls Vesturlands. (Gripið fram í: Og Norðurlands.) Einnig til Norðurlands, ég tala ekki um það, og Vestfjarða. Það er mjög mikilvægt að taka á þessu og þarna er flöskuhálsinn sem við lendum í þegar við förum út úr bænum, svo ég tali ekki um þegar við komum í bæinn á heitum sumardögum eftir góða helgi í sveitinni.

Einnig eru áformaðar vegabætur á mótum Vesturlands- og Suðurlandsvegar. Þá vildi ég líka nefna Sundabrautina og það kemur mér dálítið á óvart að í hinni ágætu skýrslu um jarðgöng skuli ekki vera nein áætlun um jarðgöng í Reykjavík. Þá á ég við þær hugmyndir sem hafa verið uppi um jarðgöng frá Kleppsvegi og út í Mosfellsbæ. Ég tel það einn af þeim valkostum sem við þurfum að skoða varðandi umferðina út úr Reykjavík.

Annað atriði er mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Það er mjög brýnt verkefni. Þeir sem koma úr Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og af Reykjanesinu öllu lenda stöðugt í teppu á þessum gatnamótum. Þar fyrir utan eru þetta ein slysamestu gatnamót í Reykjavík.

Að lokum vil ég nefna Reykjanesbrautina. Reykjanesbrautin er svo sannarlega ekkert einkamál Reyknesinga, öðru nær. Þetta er sá vegur sem flestir Reykvíkingar óttast og fara helst ekki á þá braut nema þeir nauðsynlega þurfi. Sjálf reyni ég að forðast eins og hægt er að keyra þessa braut því ég er dauðhrædd að keyra hana.

Ég held ég láti hér staðar numið. Ég vildi með orðum mínum leggja áherslu á að Reykjavík sé inni í umræðunni um vegáætlun og að Reykjavík er ekki bara fyrir Reykvíkinga heldur er hún höfuðborg allrar þjóðarinnar. Ég býst við að nánast hver einasti landsmaður komi árlega til borgarinnar og keyri um þá vegi sem þar eru. Þeir eiga líka heimtingu á því að slysum fækki.