Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:53:54 (4507)

2000-02-17 15:53:54# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller sérstaklega fyrir þá ræðu sem hún flutti. Hún vakti einstaklega vel athygli á þeim vanda sem ég sem samgrh. stend frammi fyrir þegar við lítum á höfuðborgarsvæðið. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa í ályktunum mótmælt því að framkvæmdum verði frestað og boða einhvern tíma á þessu ári forgangsröðun. Hún hefur ekki borist.

Þegar við lítum á þessi verkefni sem hv. þm. réttilega nefndi að væru mikilvæg þá er ekkert þeirra tilbúið. Það er ekki tilbúið að fara í mislæg gatnamót við Víkurveg. Það er ekki tilbúið að fara í mislæg gatnamót við Vesturlandsveg/Suðurlandsveg. Það er ekki tilbúið að fara í Sundabrautina. (Gripið fram í.) Já. Það eru ekki neinar tillögur tilbúnar um jarðgöng vegna Sundabrautarinnar. Það er ekki tilbúin nein tillaga um mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut/Miklubraut þannig að höfuðborgarsveitarfélögin hafa ekki unnið sína vinnu. Það er eðlilegt að hv. þm. sem hér er í umboði Reykvíkinga geri athugasemdir en það er ekki gott þegar sveitarfélögin vinna ekki sína heimavinnu. Ég er því mjög ánægður með að þetta skuli koma fram. Líka varðandi Reykjanesbrautina. Mikilvægustu framkvæmdirnar á Reykjanesbrautinni eru í gegnum Garðabæ og Hafnarfjörð. Það er ekki tilbúið. Ég kem betur að því í svörum mínum síðar.