Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:55:50 (4508)

2000-02-17 15:55:50# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Mér tókst ekki að koma að í fyrri ræðu minni öllu sem ég vildi sagt hafa. Ég var að fjalla um Reykjanesbraut sem er mér afskaplega hugleikin af ýmsum ástæðum. Ég þarf að keyra þessa braut á hverjum degi og stundum oft á dag. Ég stend persónulega frammi fyrir þeim hættum sem fólk lendir í á þessari braut.

Það er ekki hægt að neita því að þó að ársdagsumferð sé ekki nema 7 þús. bílar á dag eins og hér hefur áður komið fram þá er umferð þarna gríðarlega hættuleg vegna þess að maður lendir í miklum umferðartoppum þegar maður fer inn eftir brautinni, t.d. milli kl. 7 og 8 á morgnana, þá er alveg gríðarleg umferð þarna. Þarna er líka mikil umferð þungaflutningabíla. Ég held að hvergi sé önnur eins umferð þungaflutningabíla og þarna. Sú umferð er m.a. vegna þess að verið er að flytja flugvélabensín utan úr Skerjafirði suður á Keflavíkurflugvöll þó að fyrir nokkrum árum hafi verið byggð sérstök olíuhöfn í Helguvík. Bygging þeirrar hafnar var einkum rökstudd með því að hún mundi minnka umferð þungaflutningabíla sem flytja bensín og olíur á Reykjanesbrautinni verulega. Þar er aðstaða til að landa bensíni og flytja beint í leiðslum upp á völl. Ég spyr: Hvers vegna viðgengst að nýta ekki þá aðstöðu? Þetta er keyrt stanslaust til stórfelldrar hættu fyrir land og þjóð eftir Reykjanesbrautinni.

Auðvitað eru þarna eðlilegir þungaflutningar, t.d. flutningur á fiski og hjá því verður ekki komist. Ég held að flutningarnir á bensíni suður á Keflavíkurflugvöll séu óeðlilegir og það á að koma í veg fyrir þá.

Þarna eru mjög margir áætlunarbílar fullsetnir á ferðinni með flugfarþega upp á Keflavíkurflugvöll. Þessir bílar eru líka á ferðinni þegar mestu topparnir eru í umferðinni eins og t.d. snemma á morgnana. Á þessari braut verður mikið af alvarlegum slysum vegna þess að það virðist einhver æsingur í fólki sem er að keyra þarna. Þarna er keyrt hraðar en annars staðar. Þarna er mikið um aftanákeyrslur. Ef bílar þurfa að stoppa skyndilega þá keyra bílar á of miklum hraða miðað við aðstæður aftan á þá bíla. Þarna er gríðarlega mikið um framúrakstur og kannski er maður hræddastur við hann þegar maður þarf oft að keyra brautina. Það virðist mikið ábyrgðarleysi í þessum framúrakstri. Fólk virðist fara fram úr þó mikil umferð sé á móti, alveg án þess að gá að sér. Það virðist ekki gera sér grein fyrir að bílarnir sem koma á móti eru líka á mikilli ferð. Af þessu skapast gríðarleg hætta oft á dag og stundum því miður slys, mjög alvarleg slys. Slys af þessu tagi eru mjög alvarleg.

[16:00]

Þessi atburðarás öll sömul hefur leitt til þess að þingmenn kjördæmisins eru mjög sammála um að flýta verði tvöföldun Reykjanesbrautarinnar en hún er á langtímavegáætlun. Þá er tvöföldun brautarinnar milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur ekki áætluð fyrr en seint á tímabilinu, 2009 og 2010 að meginhluta. Þingmenn kjördæmisins eru að leita að leiðum til að flýta þessum framkvæmdum, fá einhverja til að taka að sér framkvæmdirnar upp á það að þeir fái þá greiðslurnar þegar þær koma frá ríkinu eins og áætlað er á langtímavegáætlun. (Gripið fram í.) Mikill þjóðhagslegur sparnaður verður fólginn í þessu sem felst í því t.d. að geta boðið út verkið og unnið það í einum áfanga, en eins og nú horfir er áætlað að þetta verði gert í smáköflum, í mjög litlum áföngum á hverju ári. Talið er að tvöföldun brautarinar fækki slysum um allt að 3/4 miðað við það sem nú er og það hlýtur að vera mikill þjóðfélagslegur ávinningur í slíkri lækkun á slysatíðni.

Ég hef áður lagt það til í blaðagreinum að það væri mikill ávinningur fyrir Íslendinga að flytja allt flug til Keflavíkur og forsendan fyrir því að hægt sé að taka slíkt upp á tunguna er auðvitað sú að miklu greiðfærari samgöngur verði suður eftir en nú eru. Það er öllum ljóst og kannski verður hægt að ræða það þegar búið er að tvöfalda brautina.

Ég ætla líka að tala um Suðurstrandarveg sem við höfum því miður ekki borið gæfu til að setja inn á vegáætlun, ekki einu sinni langtímavegáætlun jafnvel þó að farið hafi fram vísindaleg rannsókn sem nú er krafist af ráðherrum, sem því miður eru ekki á fundinum, í öllum málum. Farið hefur fram rannsókn þar sem kom í ljós að Suðurstrandarvegur er gríðarlega þjóðfélagslega hagkvæm framkvæmd, bæði hvað varðar atvinnulíf á svæðinu sem mundi hafa mjög gott af slíkri tengingu og einnig opnast frábær ferðaleið sem er okkur mjög dýrmæt á þessu svæði núna þegar við erum að reyna að auka umferð ferðamanna til landsins. Ég hef oftsinnis vakið máls á því í þinginu að það er skilyrði í mínum huga fyrir því að hægt sé að gera Suðurnes og Suðurland að einu kjördæmi að þarna sé greiðfær leið á milli. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að koma Suðurstandarvegi á vegáætlun.