Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:10:58 (4514)

2000-02-17 16:10:58# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Stuðningur og samstaða um tvöföldun Reykjanesbrautar fer nú að færast í æðra veldi hér á þingi (Gripið fram í.) því að nú hefur hv. 8. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, komið í pontu og lýst því yfir að þetta skipti þingmenn Reykjavíkur afskaplega miklu máli og ég gat ekki skilið mál hans öðruvísi en að þeir styddu þetta einhuga. Það hlýtur því að vera kominn alger meiri hluti fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar og hröðun þeirrar framkvæmdar á þingi samkvæmt orðum hv. þm. og ég vil þakka það virkilega.

Ég vil til að gjalda í sömu mynt lýsa því yfir og tók það reyndar fram í ræðu minni að ég styð heils hugar vegaframkvæmdir í Reykjavík sem er mjög brýnt að verði myndarlegar á næstu árum því hér blasir öngþveiti víða við þegar farið er um borgina.