Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:14:09 (4516)

2000-02-17 16:14:09# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 8. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, kom að því atriði í ræðu sinni að mikilvægt er að samvinna sé milli þingmanna hinna ýmsu kjördæma og til voru teknir þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness sem hafa að vísu haft samvinnu.

Það hefur verið víðtæk samvinna milli kjördæmanna. Boðað hefur verið til funda sveitarstjórnarmanna og alþingismanna á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef sótt þá fundi en því miður hafa þingmenn sennilega vegna anna ekki getað sótt þá fundi mjög vel. Ég held því að mjög mikilvægt sé að næst þegar verður haldinn fundur höfuðborgarsvæðisins, þá göngum við þar inn hönd í hönd, ég og hv. 8. þm. Reykv. og lýsum yfir, náttúrlega með alla hina þingmennina marserandi á eftir okkur nauðsyn þess að aðilar vinni að því hörðum höndum að sveitarstjórnarmenn tefji ekki framkvæmdir með því að vinna ekki heimavinnuna sína. Ef það er rétt að framkvæmdir í Sundahöfn væru hafnar ef Reykjavík væri búin að vinna heimavinnuna, þá er það auðvitað alvarlegt mál og við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson munum sjá til þess að slíkt gerist ekki oftar. Ég skal bara bjóða þingheimi að sjá þegar við göngum í salinn á næstkomandi höfuðborgarráðstefnu.