Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:16:01 (4517)

2000-02-17 16:16:01# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þá er enn hafin hér í þinginu hin reglubundna umræða um vegáætlun og það gleður mig að vegamál á höfuðborgarsvæðinu skuli komin til umræðu. Því miður hefur það oft verið þannig að vegamál á landsbyggðinni hafa verið fyrirferðarmeiri í þessari umræðu en vegamál á höfuðborgarsvæðinu en á síðasta kjörtímabili þegar ég átti sæti í samgn. þá tók ég ávallt þátt í þessari umræðu. Ég vík nú að þessu mikilvæga svæði sem höfuðborgarsvæðið er og vil vitna í athugasemdir með þáltill. um vegáætlun. Þar er fjallað um höfuðborgarsvæðið og sagt til um við hvaða svæði er miðað. Miðað er við höfuðborgarsvæðið frá Hafnarfirði, vegamóta Krýsuvíkurvegar, í suðri og til Mosfellsbæjar, vegamóta Þingvallavegar, í norðri. Á þessu svæði er þjóðvegaumferð langmest og slys tíðust. Það er mikilvægt að við ræðum um þetta svæði. Þörf fyrir úrbætur hefur vaxið ört á undanförnum árum og ýmsar kostnaðarsamar aðgerðir eru aðkallandi. Á þessu svæði er einnig unnt að fækka umferðarslysum mest. Fjárveitingar til þessa liðar eru í samræmi við gildandi vegáætlun og langtímaáætlun.

Ég harma að til stendur að draga saman og spara vegna þenslu á þessu svæði. Ég tel það mjög alvarlegt því að á þessu svæði, eins og komið hefur fram í umræðunni, er hægt að fara í arðbærustu framkvæmdirnar. Hér getum við fækkað slysunum. Hér er álagið mest, hér hefur bílunum fjölgað mest og hér er flest fólkið.

Við þekkjum það og það hefur komið fram í umræðunni hvernig umferðaröngþveitið er oft og tíðum. Landsbyggðarþingmenn sem búa hér eða þurfa að koma hingað til borgarinnar ættu að þekkja hvernig álagið er á þjóðvegum að borginni á álagstímum. (Samgrh.: Þekkjum það best.) Já. Hæstv. ráðherra sem kemur hér af Vesturlandinu ætti að þekkja það manna best.

Mikil umræða hefur verið um tvöföldun Reykjanesbrautar þegar við ræðum vegáætlanir. Vissulega er það stórmál fyrir okkur öll. Þetta er ekki sérmál þingmanna Reykjaness þó að þeir leggi auðvitað mikla áherslu á þetta heldur stórmál fyrir okkur öll. Reykjanesbrautin er þjóðbraut í og úr landi fyrir alla landsmenn, ekki bara höfuðborgarbúa heldur alla landsmenn. Þeir sem fara úr landi eða koma til landsins, landsbyggðarmenn líka, fara auðvitað þessa leið. Flestir þurfa að fara þessa leið þannig að þetta er mjög mikilvægt verkefni. Ég tek undir það að það er forgangsverkefni að tvöfalda Reykjanesbrautina. Ég held að við getum sameinast um það, ekki bara þingmenn Reykjaness og Reykjavíkur heldur ættu þingmenn allir að geta sameinast um þetta. Ég held að við sjáum sífellt betur hve mikilvægt er fyrir okkur að tvöfalda brautina.

Ég ætla ekki að taka undir það að flytja eigi innanlandsflug til Keflavíkur. Ég er ekki sammála því og tek ekki undir það en engu að síður er þetta stórt og mikið mál, að við búum almennilega að vegamálum frá höfuðborginni, höfuðborg allra landsmanna, til aðalflughafnar okkar.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Sundabrautin hefur einnig komið til umræðu hér í sambandi við jarðgangaáætlun. Ég verð að taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni, að vissulega ættu jarðgöng, sem hluti af Sundabrautinni, að koma inn í þá áætlun. Til þess er full ástæða. Þó rætt hafi verið um að fjármagna Sundabrautina sérstaklega og það sem henni fylgir þá þarf hún að vera inni í þeirri áætlun sem menn eru að setja fram.

Ég sagði í upphafi, herra forseti, að ég væri verulega áhyggjufull yfir því að fresta ætti framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að eitthvað um 500 millj. verði sparaðar með frestun framkvæmda hér en eins og fram kemur í athugasemdum með vegáætluninni. Talað um að fresta framkvæmdum sem kosta mundu 585 millj. kr. Megnið af þeirri frestun lendir á höfuðborgarsvæðinu sem er mjög bagalegt. Ég vil minna á að þegar menn hafa farið út í það áður að draga saman vegna þenslu þá hafa borgaryfirvöld í Reykjavík komið til móts við stjórnvöld og dregið saman framkvæmdir sínar á móti. Ég minni á Gullinbrú á sínum tíma og vegagerð í kringum hana.

Ég vil mótmæla því sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan, að við borgaryfirvöld og sveitarstjórnir væri að sakast í þeim málum sem er ekki hægt að fara í á höfuðborgarsvæðinu þó brýn séu. Ég veit ekki betur og þori að fullyrða að ekkert stendur upp á borgaryfirvöld í Reykjavík í þeim efnum. Allar framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru í Reykjavík eru tilbúnar. Aftur á móti voru ekki svo mörg verkefni, miðað við vegáætlunina, sem átti að ráðast í nákvæmlega innan Reykjavíkur heldur eru þau í nágrenninu, t.d. á Reykjanesbrautinni m.a. á gatnamótum Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar þar sem upp er að koma mikið verslunarhverfi. Einnig væri hægt að ráðast í breikkun Miklubrautar, það er tilbúið. Ég verð að segja að það er áhyggjuefni fyrir höfuðborgarbúa að frestað skuli framkvæmdum á svæðinu, sérstaklega með tilliti til þess að hér er álagið mest, slysin tíðust og hér er hægt að draga úr slysum með framkvæmdum.

Ég minni á ályktun frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sem hv. þm. nafna mín Möller las upp úr í máli sínu. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það enda er ræðutími minn senn á þrotum. Ég tel fulla ástæðu til að við ræða þetta frekar og vonast til þess að áður en vegáætlun kemur til afgreiðslu í þinginu verði búið að breyta nokkuð forgangsröðun varðandi höfuðborgarsvæðið. Það er mikilvægt að taka hraustlega á á þessu svæði.