Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:25:20 (4519)

2000-02-17 16:25:20# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Gunnarsdóttur fyrir að koma með þetta innlegg í umræðuna. Það er vissulega rétt, eins og fram kom í máli mínu áðan, að tvöföldun Reykjanesbrautinnar er þjóðþrifamál. Það er mál sem við eigum að ganga í sem fyrst. Ég held að við sjáum það betur og betur eftir því sem þessi eina braut sem þarna er slitnar meira og hættulegra verður að keyra eftir henni. Hér hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum lýst því yfir að hann óttist að fara þessa leið. Ég tek undir það. Ég er ekki róleg þegar ég keyri Reykjanesbrautina í bleytu eða leiðindaveðri. Við eigum ekki að sætta okkur við að þetta sé svona. Þetta er þjóðbraut úr landi og í land. Við eigum að sjá til þess að hún verði tvöfölduð sem fyrst og helst að byrja á því strax.