Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:48:59 (4530)

2000-02-17 16:48:59# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:48]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi bifreiðagjöldin væri auðvitað gott að fá meiri peninga til vegamála, það eru alveg hreinar línur. (KLM: Þú varst að gagnrýna það áðan.) Já, það vantar meiri peninga og auðvitað þarf að hugsa það mál.

Varðandi það sem hv. þm. kom inn á, sem eru að þessir þjóðflutningar kosti 6--12 milljarða, þá hef ég gagnrýnt þessa miklu þjóðflutninga sem eru ekki mjög hagkvæmir. Það er verið að byggja fyrir milljarða á þessu svæði meðan verið er að skilja eftir eignir upp á milljarða úti á landi.

En það er annað sem fólk verður að hafa í huga í þessu máli. Hvernig var þetta í upphafi þegar Reykjavík og nágrannasveitarfélögin voru að vaxa og dafna ef ekki hefði komið fólk einhvers staðar að? Þau hefðu orðið voðalega lítil með náttúrulegri fjölgun. Þetta er eitthvað sem er mjög erfitt að ráða við í samfélögum. Ég skil ekki hvað sumt fólk úti á landi er að koma hingað inn í þetta hér.

Við skulum gefa okkur það t.d. að þessi hagvöxtur mundi ekki halda áfram. Það mundi minnka vinna og annað. Margt af því fólki sem fer inn á þetta svæði er að vinna í þjónustugreinum og margir fara í það að skipta á pappírum, verðbréfum út og suður. Það eru mörg hundruð eða þúsundir manna í því og þar sem menn skiptast á bréfum. Ég hef aldrei skilið hvernig verðmæti verður til í þessu. Það er ekki að marka mig í þessum málum.

Kostnaður við þjóðflutningana, 6--12 milljarðar, það er náttúrlega ekki hægt að setja þetta svona upp þó að þetta sé óhagkvæmt, það er ljóst. Þó það verði fjölgun hér. Það koma tekjur með þessum ágætu íbúum. Uppbyggingin verður bara einu sinni. Tekjurnar halda áfram ár eftir ár. Það má ekki gleyma því. Það sem er óhagkvæmt í þessu er að það er verið að byggja upp og skilja eftir verðmæti úti á landi. Það er verst.