Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:04:02 (4535)

2000-02-17 17:04:02# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hnykkir á og ekki þarf vitnanna við. Það er bara þannig að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu geta ekki notað þessar 600 millj. sem ríkisstjórnin tók ákvörðun um að fresta á yfirstandandi ári --- það eru skilaboðin hér --- vegna þess að engar framkvæmdir eru það vel á veg komnar að þær séu komnar á framkvæmdastig.

Hæstv. ráðherra greip í það hálmstrá að nefna Sundabrautina. Það hefur engum dottið í hug að biðja um peninga í það milljarðaverkefni þannig að það er eins og hver annar útúrsnúningur. Ég veit ekki betur en að ýmsar framkvæmdir og vegabætur í kringum Kópavog til að mynda, því hér höfum við hv. þm. Gunnar Inga Birgisson með okkur, séu á því stigi að hægt sé að bjóða þær út á þessu ári. Ég veit ekki betur en að Víkurvegurinn sé á því stigi að hægt sé að bjóða hann út seinna á þessu ári, í haust. Mér koma því þessar upplýsingar afar mikið á óvart. En ég hef auðvitað ekki nákvæmar upplýsingar um stöðu þessara mála frá einu stigi til annars.

Hitt veit ég, herra forseti, af því að ég nefndi það áðan og get undir það tekið með hæstv. ráðherra, að vegurinn í gegnum Hafnarfjörð er enn í uppnámi. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að hönnunaraðgerðir Vegagerðarinnar vegna þess vegar voru því marki brenndar að Vegagerðin lét ekki svo lítið að gera stúdíu eða rifja upp og dusta rykið af fyrri athugunum vegna ofanbyggðavegar. Vegagerðin fór algerlega fram hjá því að ræða kosti og galla þess vegar og gleymdi honum þannig að illa var að undirbúningnum staðið.

Kjarni málsins er sá að hæstv. ráðherra fullyrðir hér --- og við skulum sjá hvort sveitarstjórnarmennirnir bregðast þá ekki við því --- að engar framkvæmdir séu hæfar til að ráðst í þær á þessu ári, að það sé ástæðan fyrir því að menn settu 600 millj. í salt.