Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:06:21 (4536)

2000-02-17 17:06:21# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla í andsvari að bæta aðeins við það sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Hvað snýr að höfuðborgarsvæðinu þá skulum við bara gera okkur grein fyrir því, herra forseti, að gert var ráð fyrir rúmum milljarði til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Þar af fóru tæpar 500 millj. í frestun. Þá eru um 600 millj. eftir. Þar af fara 350 millj. í hallagreiðslur. Það eru innan við 300 millj. eftir í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili.

Það hefur komið fram að Víkurvegurinn er tilbúinn í haust til framkvæmda. Það er hægt að ráðast í gatnamót Breiðholtsbrautar og Reykjanesbrautar. Reyndar er Vegagerðin með það í skoðun þannig að þar stendur ekkert upp á sveitarstjórnarmenn. Hallsvegur er í umhverfismati. Það væri hægt að fara í hann og það væri hægt að fara í breikkun á Miklubrautinni. En það eru ekki eftir nema 280 millj. Þar stendur upp á hæstv. ráðherra samgöngumála. Ég vil bara bæta því hér inn í hvernig hægt er að snúa hlutunum við hér. Það eru stjórnvöld, það er samgrh. sem kemur í veg fyrir að hægt er að fara í þessar framkvæmdir sem eru svo brýnar á höfuðborgarsvæðinu.