Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:26:43 (4541)

2000-02-17 17:26:43# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:26]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er tilbúinn til að anda í takt með hæstv. samgrh. ef hann stefnir í þá átt sem við höfum hér rætt. Út af fyrir sig komumst við ekki mikið lengra í þessu. Hæstv. ráðherra heldur hlutunum opnum en ég spyr um þetta vegna þess að það er mikilvægt að við þingmenn kjördæmisins, raunar þingmenn yfirleitt, getum sagt okkar fólki sannleikann, að við séum ekki að búa til væntingar sem ekki er hægt að standa við. Ég skil það þannig þegar hæstv. ráðherra opnar málið eins og hann gerir hér að þá geri hann það vitandi vits um að hans flokksmenn og aðrir þingmenn kjördæmisins geti sagt blákalt við kjósendur okkar: Jú, það eru góðir möguleikar á þessu.

Í annan stað vil ég bara segja að Suðurstrandarvegur er auðvitað engin afgangsstærð. Ég minni á að þær kjördæmabreytingar sem við formfestum í stjórnarskrárbreytingunum og ætlum að ganga frá fyrir vordaga voru forsendur þeirra breytinga að tenging kæmist á innan Suðurkjördæmisins. Gleymum ekki þeim þætti málsins.