Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:29:16 (4543)

2000-02-17 17:29:16# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:29]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að snúast til varnar fyrir sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu eru ekki að stuðla að þenslu. Sveitarstjórnirnar hafa reynt að draga úr framkvæmdum eins og hægt. En lögbundnum verkefnum verða menn að sinna. Þar eru grunnskólarnir og leikskólarnir og annað slíkt. Ég held að menn hafi mjög haldið að sér höndum í því máli.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það eru ekki til smiðir til að byggja brýrnar, ég er alveg sammála því. En það má gera eitthvað annað. Verð fyrir jarðvinnuframkvæmdir er mjög lágt um þessar mundir þannig að það er klárt að hægt er að fá þær fyrir hagstætt verð.

Hitt er að menn þurfa að setja sér markmið og borga niður skuldir og annað úr ríkissjóði. Ég er allra manna mest sammála því. Það þarf náttúrlega að skera niður framkvæmdir og rekstur líka og annað slíkt. En við vonum að þessi frestun sé ekki stór, hún getur orðið í nokkra mánuði. Við vonum að þetta meiði engan en ég vil þó benda á að búið er að semja um verkefnaröðina milli ríkisins og sveitarfélaganna.