Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:40:19 (4552)

2000-02-17 17:40:19# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit kannski ekki alveg hvað hv. þm. er að fara þegar hann talar um að fortíðin sé gleymd. Ég held að við Íslendingar séum oft og tíðum svo fastir í fortíðinni og sögunni að það verði ekki svo auðveldlega slitið frá. Ég hef hins vegar sagt að ég tel það skyldu okkar þingmanna sem nú sitjum að við tökum ákvarðanir um framkvæmdir á okkar forsendum.

Auðvitað þurfum við að líta til þess sem hefur verið undirbúið og unnið og líka það sem hefur verið undirbúið á sviði jarðgangagerðar. En ég get ekki betur séð en þær tillögur sem eru uppi um jarðgöng á Austurlandi séu í allbærilegu samræmi við það sem Austfirðingar vilja að verði gert, a.m.k. hef ég ekki fengið nein mótmæli við þeim áformum. Auðvitað eru næstu framkvæmdir það sem við þurfum að líta til en ég held að við ættum að geta verið sammála um að það verður mjög vandasamt að velja úr þeim mörgu verkefnum sem þar er um að ræða.