Flugmálaáætlun 2000 - 2003

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:59:00 (4556)

2000-02-17 17:59:00# 125. lþ. 66.4 fundur 299. mál: #A flugmálaáætlun 2000 - 2003# þál. 14/125, KHG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:59]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir sjónarmiðum sem fram komu í þingflokki Framsfl. og voru höfð til hliðsjónar þegar gengið var frá afgreiðslu málsins þar. Það varðar flug inn á norðanverða Vestfirði. En eins og kunnugt er er aðalflugvöllurinn Ísafjarðarflugvöllur en varaflugvöllur er á Þingeyri. Gert er ráð fyrir því í flugmálaáætluninni að bæta skilyrði á aðalflugvelli ef unnt reynist með því að koma á næturflugi. Það liggur þó ekki fyrir enn þá að af því geti orðið. Þetta er tæknilegt úrlausnarverkefni sem er í athugun og ef það gengur eftir eins og vonir standa til mun verða veruleg bót að því fyrir flug inn á þetta svæði. Það mun verða öruggara en nú er og það mun líka batna að því leyti að unnt verði að fljúga fleiri tíma í sólarhringnum en er um þessar mundir.

[18:00]

Hins vegar er ekkert víst, eins og ég sagði, hvort af þessu getur orðið, og spurningin sem menn velta fyrir sér er þessi: Hvað gera menn ef niðurstaðan af þessu verður neikvæð? Ef t.d. flugrekendur telja þetta óframkvæmanlegt eða ef niðurstaðan verður sú að sá ábati sem unnt verður að koma á er ekki eins mikill og vonir standa til? Þau sjónarmið sem ég vil gera grein fyrir lúta að því að líta á svæðið um norðanverða Vestfirði sem eina heild og þessa tvo flugvelli saman, bæði Ísafjarðarflugvöll og varaflugvöllinn á Þingeyri. Við teljum eðlilegt að gerð verði úttekt á því, samhliða þessari athugun á möguleikum á næturaðflugi á Ísafjarðarflugvelli, hvað kostar að gera úrbætur á Þingeyrarflugvelli sem geta líka leitt til þess að flug inn á þetta svæði verði öruggara en nú er. Þá hefðu menn úttektir á báðum þessum kostum og gætu borið saman gagnsemina af hvorum um sig og stæði til boða að velja þann kostinn sem betri er hvað varðar aukið öryggi flugs inn á svæðið og frá því, því að aðalatriði málsins er að bæta samgöngurnar milli svæðisins og annarra samgöngusvæða og þá einkum höfuðborgarsvæðisins.

Þetta vildi ég taka fram þannig að fyrir lægi að ósk um þetta hefur verið lögð fram og hæstv. samgrh. hefur tekið vel í þær óskir og væntanlega munu menn í fyllingu tímans geta haft niðurstöður af hvorri tveggju athuguninni fyrir framan sig. Ég vil þó segja að það er að mínu viti spennandi viðfangsefni að glíma við hvort unnt verður að koma á næturaðflugi. Mér er hins vegar kunnugt um málið frá þeim tíma er ég sat í flugráði og veit að það er flókið mál og vara við því að menn geri sér of miklar væntingar á þessu stigi málsins. Það eru mörg atriði sem þarf að leysa úr áður en þetta getur orðið að veruleika og það getur strandað á leiðinni. Nauðsynlegt er að það komi fram að við þau skilyrði er ekki litið svo á að hætta eigi við úrbætur á norðanverðum Vestfjörðum heldur snúa sér þá að þeim sem gefa betri og öruggari samgöngur aðrar, þ.e. úrbætur á varaflugvelli svæðisins, Þingeyrarflugvelli.