Vegalög

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 18:27:00 (4560)

2000-02-17 18:27:00# 125. lþ. 66.7 fundur 322. mál: #A vegalög# (reiðvegir, girðingar) frv. 54/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[18:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á vegalögum. Þar er fyrst og fremst fjallað um reiðvegina. Ég tek undir það sjónarmið að styrkja stöðu reiðveganna í samgöngukerfi landsmanna. Reiðvegirnir voru aðalsamgönguleiðir okkar áður fyrr og nú seinni árin hefur mikilvægi þeirra einmitt komið fram aftur. Reiðvegir eru að verða mikilvægur þáttur í eflingu ferðaþjónustu í landinu, bæði fornir og nýir reiðvegir í byggð og einnig líka utan byggða. Það er því fyllilega tímabært að taka þessa vegi inn sem formlega samgönguleið og fá þeim þannig þá réttarstöðu.

Eins og hæstv. samgrh. kom inn á getur þarna verið um miklar vegalengdir að ræða en þarna er líka um mikla þörf að ræða. Ég man ekki hvort það kom fram í umræðum í dag eða í gær um mikilvægi hestamennskunnar í ferðamálum. Í sumar er gert ráð fyrir að tugir þúsunda fólks muni koma hingað til landsins vegna væntanlegs landsmóts. Í úttekt um ferðaþjónustumál hér á landi kemur í ljós að verulega stór hluti þeirra ferðamanna sem koma hingað til landsins koma vegna þess að þeir hafa kynnst íslenska hestinum og náttúru Íslands í tengslum við notkun íslenska hestsins. Það er verulega stór hluti ferðaþjónustunnar hér á landi sem tengist einmitt því.

Þess vegna, herra forseti, varð ég fyrir vonbrigðum að heyra hjá hæstv. samgrh. að hann teldi ekki tímabært að auka meir fjármagn til reiðvegagerðar meðan verið væri að gera útekt á þeim og kortleggja þá.

[18:30]

Það er að vísu mjög mikilvægt að kortleggja reiðvegi og gera um þá nákvæma áætlun, um hvar þeir eru og hver staða þeirra er, en það er veruleg þörf á auknu fjármagni til reiðvegagerðar, ekki hvað síst líka í byggð, því líka þarf að finna reiðvegunum farveg innan byggðar þannig að þeir trufli ekki þar önnur landnot og aðra nýtingu lands og jarðargróða. Við þekkjum einmitt til þess að oft kemur fyrir að þarna stangist á hagsmunir hópa og einstaklinga sem eru að ferðast um, oft með skipulagðar ferðir jafnvel um einkalönd, og þó að þetta sé á fornum reiðleiðum þá eru þær alls ekki búnar til að taka við svona mikilli umferð. Ég tel því, herra forseti, að afar brýnt sé að auka fjárframlög til reiðvega og ekki hvað síst í byggð og greiða þar úr.

Hitt atriðið eru girðingar og staða girðinga gagnvart vegum. Ég held að það sé ágætt að við gerum okkur grein fyrir því að vegalagnir í gegnum tún, lönd og beitilönd bænda eru í sjálfu sér ekki beint fagnaðarefni fyrir þá varðandi nýtingu landsins. Þetta slítur oft í sundur bæði heyskap og beit á löndunum og rekstur á búpeningi. Þó svo að allir vilji yfirleitt greiða götu vegarins þá ber að hafa það rækilega hugfast að þarna er vissulega verið að skerða landnot og umferð með skepnur og fólk um land. Og þess vegna er ekkert óeðlilegt við það þó að girðingakostnaður, kostnaður við að verja vegina og umferðina og ábyrgð á þeim sé í auknum mæli fært á þá sem bera ábyrgð á rekstri vegarins. Þetta er hluti af vegagerðinni sjálfri í langflestum tilvikum og ber að líta á það þannig. Vegur í gegnum lönd, hvort sem hann er að hluta til í þágu landeigenda eða í þágu vegarins, er á ábyrgð Vegagerðarinnar fyrst og fremst.

En í þessu sambandi vil ég nefna, herra forseti, að í vegáætlun fyrir árin 2000--2004 stendur í kaflanum um girðingar, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að fjárveiting til þessa verkefnis verði 44 millj. kr. árið 2000 og hækki í 55 millj. kr. árið 2004.`` --- Og síðan kemur: ,,Mikið er enn af ógreiddum girðingakröfum.``

Og mér leikur forvitni á að vita, herra forseti, hvort hæstv. samgrh. geti upplýst hversu mikið er ógreitt af girðingakröfum sem þarna er verið að vísa til og ekki er fjármagn til þess að greiða og hvernig er þá ætlunin að standa að þeim greiðslum. Því það er náttúrlega engin leið að ætla að fresta því að standa skil á lögboðnum kostnaði varðandi girðingar frekar en annan kostnað við vegagerðina. Þetta vildi ég gjarnan fá upplýsingar um.

Og fyrst staðan er slík gagnvart þeim kostnaði sem þegar er áfallinn, að mikið skuli vera ógreitt, þá hlýtur að vera erfitt að taka á móti kostnaði fyrir nýjar framkvæmdir. Mig langar því til að spyrja hæstv. samgrh. hvort það komi þá ekki núorðið bara inn í framkvæmdirnar sjálfar, hvort þetta sé enn sérmerkt og sérfjárveitingar þurfi til að standa að girðingum, og hvort þetta verði ekki sjálfkrafa og eðlilega bara hluti af kostnaðaráætlun og framkvæmd og kostnaðaruppgjöri við viðkomandi vegi sem að Vegagerðinni lýtur.

Það er alveg klárt að standa þarf vörð um að halda búfé frá vegum sem víðast. En jafnframt þarf að tryggja að hægt sé að ferðast með búpening og á hestbaki, það sé hægt að fara með búfé, kvikfé yfir vegi án þess að stórhætta sé á og að það sé greiðfært. Þar vil ég einmitt benda á till. til þál. sem hv. þm. Þuríður Backman hefur flutt hér um rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys og þessi afbragðsmynd er hér af. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að spyrjast fyrir um hvort hæstv. samgrh. hafi ekki kynnt sér þennan góða möguleika sem liggur einmitt í þessu.

Ég vil undirstrika, herra forseti, að því ber að fagna að styrkja eigi stöðu reiðveganna í samgöngukerfi þjóðarinnar, en verja þarf meira fé til þeirra og bæta réttarstöðu þeirra. Girðingar meðfram vegum þurfa að vinnast í sátt og samlyndi með öryggi og þjónustu, bæði landeigenda og vegfarenda í huga, þannig að þar fari allt sem best saman.