Vegalög

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 18:37:14 (4561)

2000-02-17 18:37:14# 125. lþ. 66.7 fundur 322. mál: #A vegalög# (reiðvegir, girðingar) frv. 54/2000, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[18:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir undirtektir við frv. en ég vil aðeins koma inn á nokkur atriði.

Fyrst varðandi reiðvegi og áhyggjur hans vegna þess að ekki séu hækkuð framlög til reiðvega. Eins og kom fram í framsögu minni er mikið verk óunnið við að skilgreina viðfangsefnið sem er reiðvegir og áningarstaðir. En engu að síður er í vegáætluninni sem við höfum verið að fjalla um gert ráð fyrir að hækka framlög til reiðvega á milli áranna 2000 og 2001 um 15% og síðan aftur á milli áranna 2002 og 2003 um 8%. Þarna er því um hlutfallslega töluvert mikla hækkun að ræða og það var í mínum huga að teknu tilliti til þeirra áforma sem felast í þessu frv. Auðvitað þarf að hafa hér hærri fjárhæðir en þá þarf að taka þær af einhverjum öðrum liðum innan þessa ramma sem við höfum í vegáætluninni. En hv. samgn. fær þetta frv. til skoðunar og sömuleiðis vegáætlunina þannig að rýna þarf í þetta saman.

Hvað varðar girðingar og kostnað við þær þá er og verður viðhald girðinga samkvæmt skilgreiningum laganna og þá úrskurði veghaldara partur af viðhaldi vegakerfisins þar sem það á við. En lögin taka nú ekki gildi fyrr en þau hafa verið afgreidd og þá fyrst er hægt að fara að úrskurða um það sem gert verður eftir að lögin hafa tekið gildi. Ég fæ ekki séð að hægt verði að rukka um eitthvað sem kann að hafa verið gert áður en lögin taka gildi nema sérstaklega sé fundin leið til þess.

En þetta er sem sagt með þessum hætti.