Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 18:43:45 (4565)

2000-02-17 18:43:45# 125. lþ. 66.8 fundur 238. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta kanna hagkvæmni þess að gera jarðgöng úr botni Ísafjarðar, innst í Ísafjarðardjúpi, undir Kollafjarðarheiði. Að sunnanverðu, á Barðaströnd, yrðu þau tveggja arma og kæmu annars vegar út í Skálmardal, sem gengur inn úr Skálmarfirði, og hins vegar í Fjarðarhornsdal, innst í Kollafirði. Einnig verði könnuð hagkvæmni þess að gera jarðgöng undir Eyrarfjall, sem gengju úr Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi yfir í Ísafjarðarbotn, og að þvera Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð á Barðaströnd.``

Tillögunni fylgir svofelld greinargerð:

,,Ljóst er að samgöngur á Vestfjörðum standa mjög í vegi fyrir frekari framþróun á svæðinu. Á það sérstaklega við á vetrum þegar vegir eru iðulega ófærir eða illfærir um langan tíma vegna snjóþyngsla og óveðra. Flutningsmaður þessarar tillögu telur að gerð jarðganga sé í raun eina leiðin til að tryggja vetrarsamgöngur til og frá Vestfjörðum og innan svæðisins. Í tillögunni er gengið út frá því að vegur verði lagður um Arnkötludal og tekinn í notkun, hvort sem unnið verður eftir hugmyndum tillögunnar eða núgildandi vegáætlun.

[18:45]

Lagt er til að borin verði saman hagkvæmni þess að bæta samgöngur innan svæðisins með framkvæmd þessarar tillögu annars vegar og með því að fylgja núverandi vegáætlun hins vegar en þar er ekki gert ráð fyrir jarðgöngum á þessum slóðum. Þá verði borin saman hagkvæmni styttingar vegalengdar og aukins öryggis á leiðunum milli Patreksfjarðar og Gilsfjarðar og Ísafjarðarbæjar og Gilsfjarðar, verði hugmyndir þessarar tillögu að veruleika, og þeirrar hagkvæmni sem næst á sömu leiðum verði núgildandi vegáætlun fylgt. Einnig verði kostir og gallar núgildandi vegáætlunar næstu 10--15 árin bornir saman við kostnað við þessa hugmynd sem kæmi á heilsársvegasambandi milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða og við þjóðveg eitt og suðvesturhorn landsins.

Flutningsmaður er eindregið þeirrar skoðunar að jarðgöng sem stytta vegalengdir milli staða og leysa okkur undan snjómokstri á erfiðum fjallvegum sé sú lausn sem stefna beri að þegar leita skal leiða sem talist geta varanlegar samgöngubætur. Þetta á auðvitað best við á snjóþyngstu fjallvegum landsins, t.d. á Vestfjörðum. Það hefur einnig sýnt sig að þverun fjarða bæði styttir vegalengdir og færir vegastæði af snjóþungum hættusvæðum. Þverun Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar á Barðaströnd yrði sams konar samgöngubót og þverun Gilsfjarðar og Dýrafjarðar.

Með varanlegum samgöngubótum eins og hér er lýst má reikna með að gríðarstórum áfanga megi ná í samgöngumálum. Með þessum breytingum væri ekki lengur yfir neina fjallvegi að fara, utan Kleifaheiðar og Hálfdáns, sem talist geta farartálmi að vetri til.``

Í morgun fengum við hér afhenta skýrslu um jarðgangagerð. Ég ætla að fá að vitna aðeins í hana, með leyfi forseta. Þar segir á bls. níu:

,,Reynsla undanfarinna ára sem hér hefur verið tæpt á er sú að með uppbyggðum vegum sé hægt að ná vel nothæfu vegasambandi yfir fjallvegi sem taldir hafa verið mjög erfiðir. Landslagi verður þó að vera þannig háttað að unnt sé að byggja upp vegi sem verja sig. Sneiðingar í bröttum hlíðum í mikilli hæð eru t.d. illviðráðanlegir en geta verið viðráðanlegir í lítilli hæð. Vegasamband um erfiða fjallvegi verður þó alltaf takmörkum háð hversu góð sem þjónustan kann að vera. Fólk mun hafa áhyggjur af færðinni, veðrinu og hálku í löngum, bröttum brekkum. Jarðgöng eru því í öllum tilfellum mun betri og öruggari lausn til lengri tíma litið.``

Þessi orð tel ég í raun styðja þá þáltill. sem ég er hér að mæla fyrir, um að kanna hagkvæmni þessa. Ég vil einnig benda á að aftar í skýrslunni eru sýndar myndir sem sýna tilvonandi göng undir Eyrarfjall í Ísafjarðardjúpi, úr Mjóafirði í Ísafjörð og hins vegar undir Klettháls sem er mesti farartálminn á leiðinni frá Patreksfirði og Bíldudal inn á þjóðvegakerfi landsins. Ég held að það sé mjög áhugavert að kanna það sem lagt er til í þessari þáltill., þ.e. hvort hagkvæmt sé að sameina slíkar framkvæmdir. Ég tel að hægt sé að gera þessa áfanga í þeirri röð að þeir skarist ekki við plön manna um að byggja upp vegakerfi landsins. Síðasta spurningin í þeirri hugsun sem felst í þessari þáltill. væri þá hvort grafa ætti göng úr Ísafjarðardjúpi undir Kollafjarðarheiði. Ég sé hér í áætluninni að menn hafa velt fyrir sér göngum undir Klettháls og ég mæli með þeirri aðferð. Ég mæli einnig með því að undir Eyrarfjall verði gerð göng. Vitanlega er ég fylgjandi því sem hæstv. ráðherra lýsti hér í morgun, að næst á eftir göngum á Austfjörðum og Norðurlandi yrði tekið til við að grafa göng úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð. Mér finnst hins vegar mikil spurning hvort ekki eigi í þessari stöðu að skoða alla möguleika til að ná áföngum sem skipt geta verulegu máli.

Í skýrslunni er einnig fjallað um þetta á bls. 22. Þar er fjallað um Eyrarfjall í Djúpi og þar segir um hugsanleg göng undir Kollafjarðarheiði, með leyfi forseta:

,,Inn af Ísafirði er munni annarra jarðganga sem hafa verið sett á kort og þau liggja úr 30 m hæð yfir sjávarmáli suður til Kollafjarðar þar sem munni er í 100 m hæð yfir sjávarmáli. Göngin yrðu 12,5 km löng eins og þau eru sett upp á þeim kortum sem hér birtast.``

Ég held hins vegar að göng úr Ísafjarðardjúpi yfir í Fjarðarhornsdal gætu verið styttri enda þyrfti þá að fara aðeins utar í Ísafjörðinn og nýta dalverpi sem þar gengur til suðurs.

Ég hef lokið máli mínu og vona að menn taki jákvætt í þessa hugmynd og hún verði skoðuð sem einn af þeim möguleikum sem hugsanlegt er að byggja á í framtíðinni. Ég fer ekki fram á annað. Ég hugsa í áratugum í vegagerð.