Sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 18:51:27 (4566)

2000-02-17 18:51:27# 125. lþ. 66.9 fundur 242. mál: #A sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi# þál., Flm. HjálmJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[18:51]

Flm. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera framkvæmdaáætlun um uppbyggingu dreifikerfis Ríkisútvarpsins þannig að öll heimili í landinu nái sjónvarpsútsendingum þess fyrir árslok árið 2000.``

Flm. að till. ásamt mér eru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Jón Bjarnason, Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson, Tómas Ingi Olrich, Gísli S. Einarsson, Einar Oddur Kristjánsson, hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Einar Már Sigurðarson og Guðjón Guðmundsson.

Fyrir liggur samkvæmt upplýsingum Ríkisútvarpsins að 77 heimili á Íslandi ná ekki sjónvarpsútsendingum Ríkisútvarpsins. Þessi heimili eru vítt um landið samkvæmt samantekt Ríkisútvarpsins á því. Þau skiptast þannig: Eitt sjónvarpslaust heimili er í Kjósarsýslu, tvö í Borgarfirði, þrjú í Dalasýslu, sjö í Barðastrandarsýslum báðum, þrjú í Ísafjarðarsýslunum, þrjú í Strandasýslu, tólf í Húnaþingi, ellefu í vestur- og eitt í austursýslunni ef ég man rétt, tíu í Skagafirði, sjö sjónvarpslaus heimili eru í Eyjafirði, þrjú í Suður-Þingeyjarsýslu, nítján í Múlasýslum, fimm í Rangárvallasýslu og þrjú heimili í Árnessýslu. Þessir bæir eru eins og heyrist á upptalningunni vítt um landið og hluti af sveitasamfélaginu. Ekki veit ég nákvæmlega íbúafjöldann en get ímyndað mér að um 200--300 manns séu þannig settir hjá þegar kemur að þeim sjálfsögðu tuttugustu aldar þægindum að hafa sjónvarp. Þessir bæir eiga það einnig sammerkt að vera utan hinna fjölförnustu leiða.

Herra forseti. Varla hefur það góð áhrif á sjálfsmynd þessa fólks að vera skilið eftir með þessum hætti, vera afgangsstærð sem ekki taki því að koma til móts við, það svari ekki kostnaði. En kostnaðarrök eru helst talin gegn því að þessi heimili nái útsendingum sjónvarpsins. Slík rök eru auðvitað ekki boðleg vegna þess að helsta réttlætingin fyrir ríkisreknum fjölmiðli er sú að dagskráin sé opin öllum landsmönnum jafnt. Eins og ég hef rakið í þessu máli er svo alls ekki.

Ríkisútvarpið nýtur sérstöðu ljósvakamiðla. Það hefur lögverndaða tekjustofna af almennri áskrift landsmanna. Þessi sérstaða leggur Ríkisútvarpinu einnig skyldur á herðar. Það á að vera jafnt fyrir alla landsmenn. Vera kann að hægt sé að reikna út réttlætingu þess að halda þessum heimilum utan sjónvarps út frá peningalegum sjónarmiðum. Á hinn bóginn er þó auðvelt að sýna fram á að sem ein þjóð í landi með ein lög fyrir alla jafnt þá höfum við ekki efni á því að skilja nokkurn útundan. Við tilheyrum öll sama samfélaginu og höfum aðgang að þjónustu. Hún er vissulega misjafnlega dýr eftir einstaklingum. Kostnaður samfélagsins vegna þegnanna hvers og eins er mismikill. En á öðrum sviðum þjónustu látum við slíkt ekki á okkur fá. Þá vil ég benda á að ný tækni opnar nýja möguleika í sjónvarpssendingum og ódýrari kosti í dreifingu útvarps- og sjónvarpsefnis.

Ég hef einnig heyrt þær röksemdir að ríkisfjölmiðlar nágrannalandanna hafi ekki meiri útbreiðslu en ríkissjónvarpið okkar, að alltaf séu einhverjir sem ekki næst til. Gott og vel. En ætti það þá ekki að vera okkur enn meira kappsmál að leggja fram þá tiltölulega litlu fjármuni sem duga til að koma hverju byggðu bóli á Íslandi í sjónvarpssamband? Er það ekki gott skref? Er það ekki verðugt markmið?

Oft er það svo þegar stórtíðindi gerast í landinu, þegar eldgos verða eða snjóflóð, á þeim stundum finnum við hvað best að við erum ein og lítil þjóð og eins fjölskylda. Þá er það ekki síst sjónvarpið sem er okkur dýrmætt. Öflug, vönduð fréttastofa með upplýsingar og miðlun frétta á mikilvægan þátt í að þjappa okkur saman. Flestir hafa fundið þetta bæði á stundum sorgar og gleði í lífi þjóðarinnar undanfarna áratugi og ósköp væri nú miklu skemmtilegra ef, á kristnihátíð á Þingvöllum um mitt þetta ár, við vissum að allir Íslendingar gætu tekið þátt í hátíðinni gegnum sjónvarpið sitt, þeir sem ekki verða þar staddir.

Herra forseti. Fjármögnun þessa verkefnis gæti verið með ýmsu móti. Það mundi að sjálfsögðu verða verkefni starfshóps sem ríkisstjórninni yrði falið að skipa til verksins, ef þessi tillaga verður samþykkt, að fara yfir það og koma með tillögur um fjármögnun verksins. Mér telst til að það séu um 200 millj. og samkvæmt upplýsingum Ríkisútvarpsins þarf um 200 millj. til þessa verkefnis. Mér þykir líklegt, ég er reyndar alveg viss um að ef við setjum upp þá áætlun að allir landsmenn sjái sjónvarp þar sem er föst búseta þá muni fjármunir fást til verksins. Ég trúi því ekki að nokkur vilji setja þennan hóp hjá. Ég á einnig von á því að um leið væri auðvelt að huga að því að koma sendingum út á haf til þeirra fiskimiða þar sem flest skip eru, út af Vestfjörðum, Austfjörðum og hér út af Suðvesturlandinu og Suðurlandinu. Ég vænti þess að einnig verði hægt að huga að því í framhaldinu.

Varðandi þetta mál sem ég hef hér tekið upp og gert tillögu um ásamt fleiri þingmönnum, um að öll heimili á landinu njóti sjónvarpsútsendinga, þá getum við litið svo á að það væri afmælisgjöf þjóðarinnar allrar til sjálfrar sín á hátíðarári. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og til hv. menntmn.