Sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 19:05:18 (4570)

2000-02-17 19:05:18# 125. lþ. 66.9 fundur 242. mál: #A sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[19:05]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér mannréttindamál að þessi till. til þál. um sjónvarpssendingar inn á öll heimili á Íslandi nái fram að ganga. Hv. þm. Hjálmar Jónsson, 1. flm. tillögunnar, mælti afar skilmerkilega fyrir þessu réttindamáli sem væri brýn nauðsyn að standa við. Ég vil líka taka undir þær áherslur sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom með inn í umræðuna um sjónvarp til sjómanna á hafi úti og meðfram ströndum landsins. Séu þær upplýsingar sem hann kom með um að um ódýrari kost væri að ræða þá er sjálfsagt að skoða það. En mér finnst í báðum tilfellum ekki vera um svo háar upphæðir að ræða í þessu sanngirnismáli gagnvart þjóðinni allri, gagnvart því sem við eigum sameiginlegt sem ein þjóð, að það eigi að vera mál hvort það eru 60 eða 230 millj., málið er að gera þetta. Ég sem meðflm. að þessari tillögu mun standa að því sé þess nokkur kostur að þetta nái fram að ganga á árinu til allra heimila á Íslandi og til sjómanna meðfram ströndum landsins. Ég tel, herra forseti, þetta vera mannréttindamál og sanngirnismál. Þetta er mál allra Íslendinga.