Fátækt á Íslandi

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:05:12 (4576)

2000-02-21 15:05:12# 125. lþ. 67.1 fundur 327#B fátækt á Íslandi# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í síðustu viku fór fram umræða á Alþingi um fátækt á Íslandi. Í umræðunni á þingi og í fjölmiðlum í kjölfarið var rætt með hvaða hætti unnt væri að taka á vanda þess hluta þjóðarinnar sem býr við fátækt. Þessi umræða er vandasöm og hún er viðkvæm en mestu máli skiptir að beina henni inn í uppbyggilegan farveg sem færir okkur niðurstöðu.

Af þessu tilefni vil ég beina spurningu til hæstv. forsrh. þótt ég búist ekki við mjög ítarlegum svörum á þessu stigi. Einn stjórnarþingmanna hreyfði þeirri hugmynd að skipaður yrði sérstakur starfshópur þar sem ýmsir hagsmunaaðilar ættu aðild til að færa fram eða setja fram markvissar tillögur til úrbóta. Við umræðuna á Alþingi lagði ég til skylda hugmynd, að gengið yrði til formlegra viðræðna við Öryrkjabandalagið og samtök eldri borgara um þessi efni. Hjá þeim aðilum er að finna besta þekkingu hvað þessi mál snertir og á hluta félagsmanna þessara samtaka brennur vandinn heitast.

Að þessum viðræðum þyrfti löggjafinn einnig að koma og tel ég mikilvægt að þar skapist breið pólitísk samstaða. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann sé reiðubúinn að beita sér í þessa veru.