Fjármögnun á tvöföldun Reykjanesbrautar

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:18:57 (4588)

2000-02-21 15:18:57# 125. lþ. 67.1 fundur 329#B fjármögnun á tvöföldun Reykjanesbrautar# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn. Þannig er að verktakar geta ekki sjálfir valið sér þau verkefni sem þeir hafa áhuga á að vinna fyrir ríkið. Hins vegar er alveg ljóst að framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og aðrar framkvæmdir sem tengjast þeirri mikilvægu umferðaræð eru nauðsynlegar. Það kemur m.a. fram í þeirri vegáætlun sem er í gildi núna og það kom fram í umræðum, eins og hv. þm. gat um, um vegáætlun.

Svar mitt er að ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að skoða alla möguleika sem upp kunna að koma og gætu orðið til að hraða þessari framkvæmd. En til þess að það gæti orðið yrði það að sjálfsögðu að vera á forsendum opins útboðs þannig að allir ættu sömu möguleika til þess að leggja sitt af mörkum svo hraða megi viðkomandi framkvæmd. Við verðum fyrst og fremst auðvitað að fara að þeim leikreglum sem við höfum sett okkur um útboð og fjáröflun en mér er mjög vel ljóst að fjölmargir verktakar hafa áhuga á þessu verkefni og það er vel.