Siglingaleiðir olíuskipa

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:24:12 (4592)

2000-02-21 15:24:12# 125. lþ. 67.1 fundur 330#B siglingaleiðir olíuskipa# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. get ég sagt frá því að nefndin sem verið hefur að störfum og haft hefur þetta mikilvæga verkefni er komin að síðustu siglingaleiðinni í vinnu sinni, ef svo mætti að orði komast. Gert er ráð fyrir því að þessu verki ljúki innan fárra vikna. Formaður þessarar nefndar hefur gert okkur grein fyrir því í ráðuneytinu en þetta er mjög vandasamt verkefni og mörg álitaefni sem þarna þarf að fara rækilega yfir. Við þurfum auðvitað að gæta okkur á því að um leið og við viljum herða kröfur og tryggja allt öryggi á siglingaleiðum og sérstaklega varðandi skip sem sigla með hættuleg efni þá þurfum við auðvitað að gæta þess að hefta ekki umferðina við landið með óeðlilega hörðum reglum og kröfum.

En hvað um það. Nefndin vinnur að þessu verki. Ég vona að innan fárra vikna liggi fyrir niðurstaða af því starfi. Ég vænti góðs í samstarfi við hv. samgn. þingsins þegar að því kemur að fjalla um þær tillögur.