Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 16:35:03 (4603)

2000-02-21 16:35:03# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[16:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar og ég ber engar brigður á þær. Ég hygg rétt að talsvert starf hafi verið unnið að því að upplýsa um og kynna þá hluti. Í máli mínu fólst ekki að lasta það sem vel hafði verið gert heldur hitt að ég er þeirrar skoðunar, því miður, einfaldlega vegna þeirra viðbragða sem ég verð var við og fæ iðulega á borð mitt, að betur þyrfti að gera, sérstaklega að hugsa um gagnvart almenningi. Það er raunverulega tvíþætt verkefni þegar löggjöf er sett af þessu tagi eins og stjórnsýslulögin og upplýsingalögin. Annars vegar þarf að kynna hana, fá embættismenn og þá sem vinna við framkvæmdina til að vera meðvitaða um þessa hluti og vinna samkvæmt þeim. Mér býður í grun að kannski hafi kynningar- og upplýsingastarfið þrátt fyrir allt meira beinst að þeim hlutum, þ.e. að embættismönnum og kerfinu. Hins vegar er svo nauðsyn þess að upplýsa þegna þjóðfélagsins um þessa hluti þannig svo þeir nái rétti sínum á grundvelli þess að þekkja löggjöfina og vita um möguleika sína og úrræði. Þar óttast ég, jafnvel þó að talsvert hafi verið að því unnið að koma upplýsingum á framfæri, að gera þurfi enn betur. Það er nú ósköp einfaldlega mín tilfinning vegna þess hversu algengt er að maður fái fyrirspurnir eða umkvartanir sem snúa að þessu. Aðilar sem maður hefði reiknað með að væru nokkuð vel að sér um þessa hluti, ég nefni sem dæmi framkvæmdastjóra fyrirtækja, forsvarsmenn sveitarfélaga eða aðrir slíkir eru ekki alveg með það á takteinum hver staða þeirra er í samskiptum af þessu tagi. Þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þeir sem eru óvanari slíkum samskiptum við stjórnvöld kunni að fara nokkurs á mis hvað upplýsingar snertir.