Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 16:37:29 (4604)

2000-02-21 16:37:29# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[16:37]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna þessari skýrslu alveg sérstaklega og öllum þeim sem komu að gerð hennar, hvort sem þeir eru nefndir á nafn eða ekki. Það skiptir í rauninni ekki öllu máli heldur það að komin er út handhæg handbók í stjórnsýslu, ef svo má segja. Þegar slíkt rit er komið út þá spyr maður sig hvers vegna það sé ekki löngu fyrr komið fyrir manna sjónir. Í tengslum við ný stjórnsýslulög var vissulega útgefið heilmikið kynningarefni þar sem hægt var að lesa sér til um starfsskilyrði stjórnvalda og samspil stjórnvalda og löggjafarþingsins. Þetta er mikilvægt rit og ég tel eðlilegt að það verði námsgagn í háskólum landsins og vissulega víðar. Kennslubók í lögfræði, sagði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Ég hygg að það megi til sanns vegar færa en fyrst og fremst er þetta mikilvægt gagn til að skilja stjórnkerfi okkar og þjóðfélag.

Ég var fyrir fáeinum árum á námskeiði í stjórnmálaheimspeki og stjórnmálasiðferði hjá Háskóla Íslands. Það var afar gagnlegt. Við vorum þar nokkrir þingmenn og satt að segja sé ég ekki betur en þessi bók --- ég hef nú ekki lesið hana alveg ofan í kjölinn enn þá --- geti verið mikilvægt gagn til að við náum betur að sinna hlutverki okkar, hvort tveggja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Það er vissulega vaxandi áhugi í landinu og vaxandi umræða um þessi efni, samskipti Alþingis og framkvæmdarvaldsins og hlutverk þeirra í þjónustu við allan almenning.

Í skýrslunni er dreginn saman sá lögfræðilegi grundvöllur sem nauðsynlegt er að liggi fyrir til að fram geti farið þessi málefnalega og upplýsta umræða um starfsskilyrði stjórnvalda, ábyrgð þeirra gagnvart Alþingi og einnig og ekki síður ábyrgð hv. Alþingis gagnvart stjórnvöldum. Í skýrslunni er hins vegar ekki tekin nein afstaða til þeirra ábendinga sem hér eru settar fram enda hlýtur það að vera verkefni hv. ríkisstjórnar og Alþingis. Það er m.a. tilgangur umræðunnar á þessum degi hvað sem síðar verður um þessa skýrslu og hvaða umræðu hún fær á opinberum vettvangi.

Mig langar að þakka hæstv. forsrh. fyrir þetta frumkvæði, fyrir að stjórnkerfið er allt tekið út með þessum hætti og kannað hvort það virki eins og ætlast er til. Ég þakka einnig þá hvatningu sem hann hefur fengið til þess, bæði frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ýmsum fleirum. Það er allt of sjaldgæft að menn gefi sér tíma til að staldra við og kanna innviði kerfisins hjá okkur. Að því leyti er þessi skýrsla einstæð í sinni röð. Mér er ekki kunnugt um að úttekt á borð við þessa hafi áður verið gerð.

Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. liggja stjórnvöld oft undir ámæli fyrir athafnir sínar. Það kemur fram í skýrslunni að ekki er alltaf við stjórnvöld ein að sakast. Stjórnsýsla framkvæmdarvaldsins og staða þess í stjórnkerfinu er öðru fremur mótuð af löggjafanum. Stjórnvöld eru bundin af lögum og reglum og verða að haga stjórnsýslu sinni í samræmi við lög. Stjórnsýslan er með öðrum orðum lögbundin og lögin eru sá prófsteinn á starfsemi stjórnvalda sem dómstólar og sérstakar eftirlitsstofnanir, svo sem umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun, leggja til grundvallar. Almennt skiptir því miklu fyrir starfsskilyrði stjórnvalda hvernig til tekst um setningu laganna. Þar er auðvitað komið að hlut hins háa Alþingis. Í skýrslunni er bent á undirrót margra ágreiningsefna í stjórnsýslu og oft virðist mega rekja þau til atriða sem ekki hefur verið hugað nægjanlega að við gerð laganna. Þar hittir það að sjálfsögðu fyrir hið háa Alþingi, löggjafann.

Mig langar sérstaklega í þessari stuttu tölu að benda á kafla 2.13. og 2.14., þ.e. um almennar efnisreglur stjórnsýsluréttar og siðferði. Niðurstaðan þar er í grófum dráttum byggð á því sama, þ.e. að siðferðilegt gildi og gæði stjórnvaldsákvarðana sé óhjákvæmilega háð lagasetningu Alþingis. E.t.v. mætti koma skýrar fram í skýrslunni að kjarni stjórnsýslunnar og vandaðra stjórnsýsluhátta er ekki aðeins af lagalegum toga spunninn heldur einnig og ekki síður siðferðilegum. Hann er þá væntanlega fólginn í því hlutverki stjórnsýslunnar að þjóna almenningi, bæði með því að efla og virða réttindi einstaklinga og með því að vinna að hagsmunum heildarinnar. Góð stjórnsýsla er með öðrum orðum stjórnsýsla sem hefur að leiðarljósi grundvallarsiðgildi og siðferðisgildi lýðræðislegs samfélags, svo sem virðinguna fyrir einstaklingunum sem frjálsum persónum og jöfnum fyrir lögum, löggjafa og stjórnvöldum. Þennan siðferðilega kjarna mætti umræðan um hvernig bæta megi opinbera stjórnsýslu jafnframt hafa að leiðarljósi. Hann hlýtur að vera hinn endanlegi, siðferðilegi mælikvarði á framfarir í stjórnsýslunni.

Herra forseti. Almenn siðferðisvitund og það sem er góð regla að flestra dómi hlýtur þannig að móta löggjöf landanna. Lögin breytast, reglur samfélagsins breytast eftir tíðarandanum, almenningsálitinu. Löggjöf landanna endurspeglar þannig hið almenna álit og almenna viðhorf. Að þessu sögðu sjáum við að enn þá mikilvægara er að allir þegnar þjóðfélagsins geri sér ljósa ábyrgð sína. Í sameiningu mótar þjóðin öll lagaumgjörðina sem hún býr við. Löggjafinn og stjórnkerfið skulu þjóna því markmiði í sameiningu fyrir þjóðina alla.