Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 17:56:11 (4611)

2000-02-21 17:56:11# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér gafst ekki tími til þess áðan að ljúka öllu því sem ég vildi fara yfir á þeim stutta tíma sem okkur er skammtaður til umræðunnar. Ég átti ýmislegt ósagt sem snertir réttaröryggi borgaranna. Ég vil þá nota síðari ræðu mína í að fara nokkuð yfir þau atriði.

Ég vil fyrst segja að ég tel þá umræðu sem hér hefur farið fram mjög gagnlega. Hér er dæmi um skýrslu sem bæði stjórn og stjórnarandstaða eru mjög sammála um. Það er raunverulega sammerkt með málflutningi allra sem hér hafa talað. Þær tillögur sem hér koma fram njóta víðtæks stuðnings og kallað er eftir því að skýrt verði hvar í stjórnsýslunni ábyrgðin liggur, hvernig auka eigi eftirlit, hvernig megi opna stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og hvernig hægt sé að auka réttaröryggi borgaranna.

Eins og ég sagði áðan er fyrst og fremst um að ræða kortlagningu á því sem þarf að gera. Þess vegna er mjög mikilvægt að hv. allshn. fái skýrsluna til umfjöllunar. Mér finnst innlegg formanns allshn. sem talaði áðan, hv. 5. þm. Reykn., Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, mjög mikilvægt í því máli. Hún mælir líka eindregið með því að málið fari til umfjöllunar í allshn. enda liggur það í hlutarins eðli að hér eru ýmsar tillögur á ferðinni sem snerta starfsskilyrði Alþingis og alþingismanna. Auðvitað er rétt og eðlilegt að þingið og allshn. fái tækifæri til að fjalla um það og segja álit sitt á því til undirbúnings löggjöf sem forsrh. mun væntanlega beita sér fyrir á ýmsum sviðum ef ég skil hann rétt. Auðvitað mun allt þetta taka langan tíma en með þessari skýrslu er vissulega stigið mikilvægt skref til þess að bæta stjórnsýsluna.

Ég vil aðeins árétta, áður en ég kem inn á það sem ég vildi draga fram varðandi réttaröryggi borgaranna, að ég tel ákaflega mikilvægt innlegg í umræðuna ef við fengjum fram, þegar hæstv. forsrh. væntanlega talar í lok þessarar umræðu, hver skoðun hans er á þeirri tillögu sem ég tel afar mikilvæga og snertir heildarlöggjöf um skaðabótaábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Ég dró það fram sem fram kemur í skýrslunni að lagt er til að undirbúin verði heildarlöggjöf um skaðabótaáhrif ríkis og sveitarfélaga og einmitt minnt á að 40 ár eru liðin síðan samþykkt var þáltill. sem kvað á um að það skyldi gert. Þetta er afar mikilvægt mál sem snertir fébótaábyrgð bæði varðandi ríki og sveitarfélög þegar einstaklingar og fyrirtæki telja að hið opinbera eða embættismenn hafi brotið á þeim og telja sig hafa orðið fyrir tjóni. Þetta tel ég afar mikilvægt.

[18:00]

Ég vil líka fá fram álit hæstv. forsrh. á atriði sem hann nefndi ekki í fyrri framsögu sinni en kemur væntanlega inn á hér á eftir en það er það sem fjallað er um í skýrslunni og snýr að endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð en skýrslan segir að þau lög séu óskýr og matskennd og vafi leiki á að hin almenna verknaðarlýsing laganna sé nægilega skýr samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru í dag til refsiákvæða.

Hæstv. félmrh. minnti á frv. sem hann hafði flutt um lagaráð á sínum tíma sem var gagnmerkt frv. og kemur aftur fram í þessari skýrslu. Ég innti einmitt hæstv. forsrh. eftir því hvort hann teldi ekki eðlilegra ef farið væri í það að bæði stjórnarfrv. og þingmannafrv. yrðu yfirfarin, kannski sérstaklega með tilliti til þess hvort þau stæðust stjórnarskrá, að það væri frekar gert á vegum þingsins en framkvæmdarvaldsins.

Ég vil líka álykta af því að hæstv. félmrh. minnti á frv. um lagaráð sem hann hefði flutt á sínum tíma, að hæstv. félmrh. hljóti að styðja endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð vegna þess að hann flutti sjálfur sem óbreyttur þingmaður á sínum tíma tillögu um endurskoðun á þeim lögum. Ég vænti því þess að það hafi a.m.k. stuðning hæstv. félmrh. og væntanlega forsrh. einnig, og væri mjög gott að fá skoðun hans fram á því nú í umræðunni.

Einnig hefði verið gagnlegt líka þó að það komi ekki beint fram í skýrslunni að heyra álit hæstv. forsrh. á því og þá með tilliti til þess sem hæstv. forsrh. lét frá sér fara fyrir þó nokkru að hann teldi að koma þyrfti hér á, og það snertir réttaröryggi borgaranna, umboðsmanni skattgreiðenda. Ég vil spyrja hvort hæstv. forsrh. sé fallinn frá því og hvort hann telji kannski eðlilegra að styrkja umboðsmann Alþingis sem margir hafa talað fyrir. Ég vil velta upp í því sambandi að ekki er langt síðan það kom fram hjá forstöðumanni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna þar sem hún lét hafa eftir sér að lítill samningsvilji væri hjá ríkinu við mikið skuldsetta einstaklinga, og nefndi forstöðumaðurinn að þróunin hefði verið sú að margar lánastofnanir hefðu samþykkt nauðasamninga en innheimtumenn ríkissjóðs hefðu undantekningarlaust neitað þeim þegar um væri að ræða heimili sem væru komin í greiðsluþrot og ekkert blasti við annað en gjaldþrot og skulduðu t.d. opinber gjöld. Það rökstyður auðvitað það sem hæstv. forsrh. hélt fram á sínum tíma að skoða þyrfti hvaða leiðir væru færar til þess að styrkja stöðu skattgreiðenda og hann nefndi í því sambandi umboðsmann þeirra, þannig að mér finnst það eiga heima í þessari umræðu að við heyrum hvort skoðun hæstv. forsrh. hafi eitthvað breyst hvað það mál varðar.

Síðan vil ég í lokin koma inn á það sem mér vannst ekki tími til í fyrri ræðu minni að í skýrslunni er nefnt að skoða þurfi ákvæði laga sem mæla fyrir um fullnaðarúrskurðarvald stjórnvalda og erfitt sé að finna þeirri skoðun viðhlítandi rök að borgararnir eigi ekki rétt á að geta fengið endurskoðað af dómstólum hvort matskennd ákvörðun stjórnvalds um rétt þeirra eða skyldu sé lögmæt og byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Þetta tel ég afar mikilvægt og mælir nefndin eindregið með að a.m.k. verði það tryggt í lögum að aðila máls sé heimilt að bera mál sitt undir dómstóla hafi hið æðra setta stjórnvald ekki leyst úr því innan þriggja mánaða frá því að kæra berst. Ég tel mjög mikilvægt að þetta sem hér er hreyft sé skoðað og að ákveðið aðhald sé í því að ekki sé hægt að teygja mjög á úrlausn þegar verið er að leita réttar síns í stjórnsýslunni eða hjá því opinbera.

Síðan höfum við rætt um birtingu samþykkta hjá sveitarfélögunum sem nefndin telur nokkra brotalöm á og bæði hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. hafa komið inn á og mér finnst það sem hæstv. ráðherra nefndi, að upplýsingar kæmu fram á netinu, góðra gjalda vert, en þá skulum við hafa í huga að það eru kannski ekki allir sem hafa beinan aðgang að því en það er mjög mikilvægt að menn komist að niðurstöðu um að sveitarfélögin birti með eðlilegum hætti samþykktir sínar og reglur. Einnig, eins og hér kemur fram, að sveitarfélögum sé ætlað að setja nánari reglur um rétt eða skyldu íbúa sveitarfélagsins, eins og t.d. um framkvæmd félagsþjónustu sveitarfélaga, að þau dragi það ekki úr hömlu og eins varðandi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem hvert sveitarfélag á að setja reglur um og reglurnar eru mjög mismunandi, og hjá mörgum sveitarfélögum hefur það oft dregist í mjög langan tíma að slíkar reglur séu settar, kannski ekki hjá stærri sveitarfélögunum. Ég hygg að það sé þá aðallega hjá fámennari sveitarfélögum sem hafa kannski komið sér hjá að setja lög eða reglur um rétt einstaklinga eins og um fjárhagsaðstoð og með því hafa þau kannski haft þau áhrif að einstaklingar sem njóta þurfa fjárhagsaðstoðar eru flæmdir úr sveitarfélaginu. Mér finnst að það þurfi að vera mjög afdráttarlausar og skýrar reglur þar um.

Til að bregðast við því er nefnd sú leið að hægt sé að setja í lög að ráðherra á hlutaðeigandi sviði gefi út reglur sem gilda skulu þar til sveitarfélag hafi sjálft sett sér reglur á umræddu sviði. Mér finnst ákveðið aðhald koma þar fram sem kannski á rétt á sér eða ætti a.m.k. að skoða vandlega hvort rétt sé að fara þá leið.

Ýmis atriði eru nefnd í þessari skýrslu sem snerta réttaröryggi borgaranna og hvernig þeir geti leitað réttar síns. Þar er í raun verið að bregðast við því að hér er ekki til staðar stjórngæsludómstól eða stjórnsýsludómstóll eins og þekkist alls staðar í Evrópu, nema í Noregi, Danmörku, Bretlandi og Íslandi, en annars staðar eru það sérhæfðir dómstólar eða stjórnsýsludómstólar sem dæma í málefnum stjórnsýslunnar. Ég skil málið svo að það sé tillaga nefndarinnar að helstu kostir stjórngæsludómstóls verði nýttir í dómskerfi okkar og málsmeðferðarreglur ýmsar hjá dómskerfinu felldar að þeirri breytingu.

Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég vil ítreka að ég tel að þessi umræða hafi verið mjög gagnleg og hafi leitt ýmislegt í ljós sem ég hygg að sé mjög breið samstaða um að bæta úr. Ég held að það hljóti að vera sameiginlegir hagsmunir bæði löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins að í ýmis þau úrlausnarefni sem hér eru sett fram verði sett vinna til að þau nái fram að ganga og eins og ég sagði í máli mínu áðan, sumt af þessu getur tekið einhvern tíma en við erum vissulega að stíga mikilvægt skref til að bæta stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og skýra hvar ábyrgð liggur, auka eftirlitið og bæta réttarstöðu og réttaröryggi borgaranna.

Að lokum, herra forseti, sé ég fulla ástæðu til að þakka hæstv. forsrh. aftur fyrir framlagningu á þessari skýrslu og vil gera það að lokaorðum mínum að ég tel það til fyrirmyndar hjá hæstv. forsrh. að hafa gefið skýrsluna út í því bókarformi sem hér hefur verið lagt fram og tel það til eftirbreytni þegar um svo mikilvægt mál er að ræða sem við erum að fjalla um. Ég tel að það eigi eftir að sannast sem ég nefndi að skýrslan eigi eftir að vera notuð sem kennslubók í lögfræði um einhvern tíma og kannski eins og hv. formaður allshn. nefndi líka í lokin að þetta verði skyldulesning í stjórnsýslurétti.

En umfram allt er þó megintilgangurinn með framlagningu skýrslunnar sá að við drögum af henni ályktanir og lærdóm og komum því til framkvæmda sem við teljum að sé til hagsbóta fyrir stjórnsýsluna alla og til að bæta réttaröryggi borgaranna og gera starfsskilyrði bæði framkvæmdarvaldsins og stjórnvalda og alþingismanna betri en þau eru í dag.