Þjóðlendur

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 18:37:38 (4617)

2000-02-21 18:37:38# 125. lþ. 67.11 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[18:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta sem er til umræðu er sett fram til að leiðrétta og bæta úr þegar framkomnum ágöllum á þeim lögum sem samþykkt voru í fyrra um þjóðlendur. Ég held að ekki sé ofsagt að framkvæmd þeirra laga og sú vinna sem gert er ráð fyrir á grundvelli þessara laga hafi komið mönnum mjög á óvart, bæði bændum og landeigendum. Eins hefur mér virst á mörgum þeim þingmönnum sem áttu aðild að því að fjalla um frv. á sínum tíma að framkvæmdin hafi á vissan hátt einnig komið þeim á óvart.

Í lögunum er flokkað niður í eignarlönd, þjóðlönd og afrétti. Eignarlönd eru þannig landsvæði sem háð eru einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Þjóðlendur eru aftur á móti landsvæði utan eignarlanda þó einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar tökmörkuð eignarréttarnot. Í þriðja lagi er síðan afréttur, landsvæði utan byggðar sem hefur að staðaldri verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.

Samkvæmt laganna hljóðan er gert ráð fyrir því að þjóðlendur séu fyrst og fremst landsvæði sem stæði utan eignarlanda, þ.e. utan þeirra landa sem landeigendur teldu sig hafa landamerkjabréf og þinglýstar eignarheimildir fyrir.

Herra forseti. Síðan var fyrsta krafan eða fyrsta landsvæðið sem tekið fyrir, þ.e. krafa sem sett var fram af hálfu framkvæmdarvaldsins til þjóðlendna. Þá kom fram krafa til svo mikilla landsvæða að heilu jarðirnar eru gerðar nánast eignarlandslausar og einnig var veruleg skerðing á eignarlöndum sem aðilar töldu sig áður hafa fullnægjandi eignarheimildir fyrir. Mér virðist að ekki hafi verið gert ráð fyrir svona miklum mun í afstöðu til framkvæmda laganna, þó allir hefðu búist við, eins og hæstv. forsrh. kom inn á áðan, að sjálfsagt mundi verða einhver ágreiningur um einstök lönd, merki og réttindi. En að heilu jarðirnar sem slíkar væru undirlagðar sem þjóðlendur, það held ég að engum hafi dottið í hug.

Herra forseti. Mér finnst fyllilega ástæða til þess að framkvæmd þessara laga og vinnureglur og sú sýn er þar speglast verði endurskoðuð, að hreinlega verði staldrað við, hægt á þessari vinnu og farið yfir hvers konar mál þarna er verið að setja í gang. Það getur ekki verið ætlun löggjafans að efna til lagalegs ófriðar við stóran hluta bænda í landinu og landeigenda sem eiga land að hálendinu. Það getur ekki verið ætlun löggjafans eins og nú hefur birst í fyrstu kröfum sem komnar eru fram.

Ég vil benda á, eins og þeir sem þarna hafa einmitt verið farnir að meta stöðu sína og takast á um skilgreiningar, að dregnar eru í efa þinglýstar eignarheimildir á landareignum landeigenda og jafnan einnig réttindi landamerkja og þess háttar. Vel má vera að gagnvart einhverri nútímalagasýn og lagatúlkun geti þar verið einhver atriði sem búa megi til ágreining um en þó er jafnljóst, herra forseti, að þinglýstar eignarheimildir jarða með lönd að hálendinu ættu í sjálfu sér að vera jafngildar og þinglýstar eignarheimildir á jörðum og landi hvar sem er á landinu. Þar ætti í sjálfu sér enginn munur að vera. Ekki ætti að vera neinn munur á eignarlandi í Kópavogi, Reykjavík, Nesjavöllum, Reykjanesi eða hvar sem er, ef á annað borð er talin lagaleg ástæða til að draga í efa þinglýstar eignarheimildir fyrir einstakar jarðir. Þetta getur ekki bara verið afmarkað við þær jarðir sem eiga land að hálendinu.

Mér finnst því, herra forseti, að þetta mál hafi farið þannig af stað að það beri að skoða vandlega hvað er verið að fara út í. Sé ætlunin að keyra þetta mál áfram eins og lagt hefur verið af stað með, þó þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til séu vissulega réttarbót í þeim efnum, breytir það engu um sjálft eðli framkvæmdarinnar. Sé ætlunin að gera það eins og hér hefur verið lagt upp með væri miklu hreinlegra af hálfu ríkisins að setja fram allar kröfurnar í einu lagi gagnvart landinu öllu en taka ekki einstakt landsvæði út úr og búta þannig niður þetta stórmál. Það væri miklu heiðarlegra ef ætlunin er að ganga fram eins og hér hefur verið lagt af stað.

Herra forseti. Ég ítreka þá skoðun mína að framkvæmdarvaldinu beri að staldra við, fara yfir þetta mál aftur og leita leiða til fara fram í þeim anda sem lögin í sjálfu sér gera ráð fyrir, þ.e. að efna ekki til stórkostlegs ófriðar með flestöllum landeigendum sem eiga lönd að hálendinu. Það er ekkert víst hvar það endar, með ófyrirsjáanlegum kostnaði. Það var ekki ætlunin og það ber að endurskoða framkvæmd þeirrar vinnu sem farið hefur í gang með þessum hætti. Lagabreytingin sem hér er lögð fram opnar þessi lög einmitt til frekari umræðu, bæði á þinginu og inni í þingnefnd en vissulega eru áfram réttarbætur fyrir þessa vinnu.