2000-02-22 13:37:57# 125. lþ. 68.92 fundur 333#B vinna við skýrslu um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög brýnt að fá endurnýjaða úttekt á stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi vegna þess hve miklar breytingar hafa orðið nú þegar þar á frá árunum 1993--1995 þegar þessi mál voru síðast til skoðunar. Það eru því vonbrigði ef það þarf að dragast fram á næsta ár að vinna þar að lútandi komist af einhverri alvöru af stað. Ég er sannfærður, herra forseti, um að það er nægur vilji á Alþingi fyrir því að leggja fé til þessa verkefnis ef hæstv. ráðherrar telja sig vanbúna í þeim efnum að koma verkinu af stað tafarlaust vegna þess að þá skorti fjárheimildir. Það liggur algjörlega í loftinu pólitískur vilji til þess og mikill meiri hluti er fyrir því að þetta verk verði unnið.

Herra forseti. Ég minni á að úttektin á árinu 1994 var ákveðin sem hluti af setningu samkeppnislaganna. Þegar þau voru sett árið 1993 var ákveðið með ákvæði til bráðabirgða að þessi vinna skyldi unnin. Hún var því í raun og veru hluti af því umhverfi sem var til staðar þegar samkeppnislögin voru sett. Þá var uppi umræða um það hvort slíkt ákvæði ætti að vera í ákvæði til bráðabirgða eða þetta ætti að vera fast ákvæði í lögunum og þar af leiðandi reglubundinn hluti af starfsemi Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs að gera slíka könnun á eigna- og stjórnunartengslum í atvinnulífinu til þess að mönnum geti verið það ljóst ef hættumerki eru þar á ferð.

Ég sat í nefnd sem gerði tillögur til hæstv. ráðherra á síðasta ári um endurskoðun samkeppnislaga og þar lagði ég til að inn í lögin kæmu slík vöktunarákvæði. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera hluti af löggjöfinni að samkeppnisyfirvöld fylgist reglubundið með því hvort á ferðinni sé samþjöppun í atvinnulífinu eða einkenni hringamyndunar þannig að ástæða sé til þess að grípa til aðgerða og það eigi ekki að vera háð tilviljanakenndum tillöguflutningi hér á þingi að gera slíkar úttektir heldur eigi þetta að vera reglubundinn hluti af starfsemi samkeppnisyfirvalda.