2000-02-22 13:40:17# 125. lþ. 68.92 fundur 333#B vinna við skýrslu um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[13:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Mér kemur þessi yfirlýsing hæstv. iðn.- og viðskrh. og ákaflega mikið á óvart. Í fyrsta lagi hefur aldrei verið brýnna en nú að skoða stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi vegna þeirrar hringamyndunar og fákeppni sem hér ríkir og vegna þess að allir finna að eignir eru að færast á hendur mjög fárra í þjóðlífinu. Og þegar ráðherrann kemur hér og talar um að þetta sé dýr skýrsla af því að hana þurfi bæði að endurvinna og að hún verði aukin að umfangi þá var þessi skýrsla að sjálfsögðu mjög dýr árið 1994. Hún var unnin við erfiðar aðstæður. Þá var samdráttur í atvinnulífinu og þurfti að horfa til margra átta með takmarkað fjármagn hjá ríkinu. Nú er góðæri og feikilega góð staða og ráðherrann segir að það þurfi sérstaka fjárveitingu og það eigi að beita sér fyrir því að hún fáist á fjárlögum næsta árs. Að vísu kemur fram að það eigi að reyna að útvega einhverja peninga í millitíðinni en ég spyr bara: Hvar var ráðherrann, ríkisstjórnin og aðrir sem um áttu að véla þegar við vorum að fjalla um fjárlög þessa árs? Ekki kannast ég við að í eitt einasta skipti við meðferð fjárlaga fyrir jól hafi komið fram að það vantaði 14 millj. til að vinna þessa þýðingarmiklu skýrslu. Ekki kannast ég við að okkar fólk í fjárln. hafi látið okkur vita að það þyrfti sérstaka fjárveitingu. Beiðnin kom í október og núna í febrúar er verið að vísa þessu máli til fjárlagagerðar næsta árs. Þetta eru vond vinnubrögð og tilfinningin sem maður fær er sú að menn séu að ýta þessu þýðingarmikla verkefni á undan sér í stað þess að láta hendur standa fram úr ermum. Ég hvet ráðherrann til þess að vera ekki með neitt múður heldur láta hendur standa fram úr ermum og skila þessari skýrslu fyrir vorið.