2000-02-22 13:47:49# 125. lþ. 68.92 fundur 333#B vinna við skýrslu um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þessar upplýsingar hæstv. viðskrh. er ekki hægt að þakka. Í október, þegar hér voru rædd samkeppnismál, var áhersla lögð á að fyrir utan það að láta vinna skýrsluna yrði að koma upp vefsetri hjá Samkeppnisstofnun þannig að þessar upplýsingar væru aðgengilegar á hvaða tíma sem er og hægt væri að uppfæra jafnóðum og breytingar yrðu í viðskiptalífinu. Því er ekki verið að koma fram með nýjar upplýsingar um gagnaöflun sem hér eftir verði byggt á. Þetta var rætt strax í upphafi þings í byrjun október.

Það sem við erum að gagnrýna er að vinna við skýrsluna skuli ekki hafa verið sett í gang strax. Það kom reyndar í ljós hjá fyrrv. hæstv. viðskrh. í umræðu fyrir jól að beiðni um skýrsluna væri ekki enn farin til Samkeppnisstofnunar og það var gagnrýnt harðlega. En á dauða mínum átti ég von, herra forseti, og tek það stórt upp í mig, en ekki að upplýst yrði undir lok febrúar að enn væri vinna ekki farin í gang og að nú snerist málið um 14 millj. kr. Ég bjóst ekki við því í jafnviðamiklu máli sem svo nauðsynlegt er fyrir alla til að varpa ljósi á, þ.e. hvernig stjórnunar- og eignatengsl eru í þjóðfélaginu. Það er eitt brýnasta málið hjá okkur að leysa.

Þessar upplýsingar er því ekki hægt að þakka fyrir. Hins vegar hvet ég ráðherrann til þess að vinna við þessa skýrslu fari í gang eins og skot og reynt verði að hraða þessu verki og peningaleysi fái ekki að ráða því að vinna tefjist við skýrsluna. Hins vegar lýsti skýrslubeiðandinn því strax að hann hefði skilning á því að þetta verkefni tæki lengri tíma en hefðbundnar skýrslur. Ég undirstrika það.