Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:00:29 (4632)

2000-02-22 14:00:29# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur kvatt sér hljóðs utan dagskrár um það sem hún kallar fyrirhugaðan niðurskurð á þjónustu við geðsjúka. Þess vegna vil ég að gefnu tilefni að fram komi strax í upphafi umræðunnar að þjónusta við geðsjúka mun ekki dragast saman. Skjólstæðingar heilbrigðisþjónustunnar sem þurfa á meðferð geðsviðanna að halda munu fá örugga þjónustu hér eftir sem hingað til.

Forsvarsmenn geðsviðasjúkrahúsanna í Reykjavík hafa fullvissað mig um að í heild stendur alls ekki til að draga úr þjónustu við sjúklinga. Markmið þeirrar vinnu sem nú er í gangi innan sjúkrahúsanna er að nýta aðstöðu og mannafla sem best í þágu sjúklinga og það kann vel að hafa í för með sér að þjónustan flytjist til í húsum og milli húsa. En hún minnkar ekki.

Hvað varðar umræðu um Gunnarsholt og Arnarholt þá verður sú starfsemi ekki lögð niður. Það verða engar breytingar gerðar nema tryggt sé að vel verði séð fyrir þeim sem þar dvelja. Hvort sú starfsemi eigi til framtíðar heima undir merkjum heilbrigðisþjónustunnar eða hluti hennar hugsanlega sem félagsleg þjónusta er nokkuð sem ég er alveg tilbúin að skoða. En starfsemin verður áfram til staðar. Það skiptir mestu fyrir skjólstæðingana. Þeir þurfa ekki að óttast um hag sinn.

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. muna var fjárveiting til sjúkrahúsa í fullu samræmi við fjárhagsáætlun þeirra. Þetta gildir líka um stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. Fjárveitingar til þeirra voru í fullu samræmi við eigin áætlanir þeirra. Ég er þakklát þeim hv. þm. sem samþykktu fjárlög við afgreiðslu fyrir áramót.

Stjórnendur í heilbrigðisþjónustu axla mikla ábyrgð. Þeir stýra stofnunum sem eru mjög viðkvæmar og varða okkur miklu. Þeir ráða yfir miklum fjármunum og taka ákvarðanir um nýtingu þeirra. Þeir sem stýra stærstu sjúkrahúsunum taka að sjálfsögðu ákvarðanir um forgangsröðun verkefna á starfssviði þeirra. Ráðherra kemur ekki að ákvörðunum um slíka forgangsröðun nema í undantekningartilvikum, en ég hef oft ítrekað að mér finnst mikilvægt að geðsviðin hafi ákveðinn forgang og hann hafa þau haft í minni tíð sem ráðherra. Það hefur komið fram í aukinni þjónustu við geðsjúka, m.a. með aukinni göngudeildarþjónustu, aukinni dagdeildarþjónustu, aukinni þjónustu geðlækna utan sjúkrahúsa og aukinni þjónustu geðhjúkrunarfræðinga við sjúklinga í heimahúsum. Það hefur einnig komið fram með fjölgun starfsfólks á barna- og unglingageðdeild.

Virðulegi forseti. Í greinargerð frá sjúkrahúsunum í Reykjavík um starfsemi geðsviðanna er ein lykilsetning. Hún er þessi: ,,Í heild stendur því alls ekki til að draga úr þjónustu við sjúklinga.`` Þetta er úr greinargerð frá stjórnendum spítalanna í Reykavík um starfsemi geðsviðanna á árinu og hvort sem málshefjanda líkar það betur eða verr, þá er þetta staðreyndin nú.

Virðulegi forseti. Það er öfugmæli að halda því fram í tíma og ótíma að verið sé að skera niður á sjúkrahúsunum í Reykjavík. Það er ekki niðurskurður þegar framlögin eru aukin úr 14 milljörðum í 19 milljarða á þremur fjárlagaárum eða um 5 milljarða kr.

Virðulegi forseti. Þessar tölur svara öllum spurningum hv. málshefjanda.