Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:07:43 (4634)

2000-02-22 14:07:43# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), MSv
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Margrét K. Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrirsjáanlegur er niðurskurður á þjónustu við geðsjúka. Framlög til geðsviðs Landspítalans eru að vísu óbreytt en mikil breyting er áformuð á geðlækningasviði Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í fjárhagsáætlun var því gert að spara 100 millj. kr. þó svo, ef marka má allra nýjustu fréttir í hádeginu, að farið sé að tala nú um 50 millj. kr. Þessari hagræðingu verður náð með því að sameina á Landspítalanum geðsvið spítalanna tveggja.

Þetta þýðir í raun að verið er að leggja geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur niður. Þarna er verið að spara fjármuni með stórfelldum niðurskurði á bráðasjúkrarúmum fyrir geðsjúka. Þetta eru smáaurar í samanburði við þær tölur sem þekkjast af kvótabraskgróða, en með þessum niðurskurði þarf geðheilbrigðisþjónusta að þola hlutfallslega meiri skerðingu en nokkur annar rekstrarþáttur sjúkrahúsanna.

Hlutverk bráðaþjónustu geðdeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur verið að sinna skjótt og vel þörfum einstaklinga sem þangað leita eftir sjálfsvígstilraunir, vegna áfalla, þunglyndis eða vímuefnavanda sem og þörfum einstaklinga með langvinnar geðraskanir svo sem geðklofa eða geðhvörf. Þegar slíkir sjúklingar leita á slysadeild er það oftast vegna þess að líðan þeirra er slík að brýnt er að sjúklingurinn sé metinn sem fyrst, t.d. vegna sjálfsvígshugleiðinga eða sturlunareinkenna. Því er nauðsynlegt að aðgengi að þjónustu sé fullnægjandi þegar eftir henni er leitað.

Herra forseti. Það er ljóst að skerðing sú sem hér er til umræðu bitnar harkalega á þeim sem haldnir eru alvarlegum geðsjúkdómunum, þeim sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og þeim sem þurfa á bráðainnlögn að halda vegna sjálfsvígshættu.

Í ljósi orða hæstv. heilbrrh. hér áðan vona ég að unnt sé að treysta því að komið verði í veg fyrir þennan stórfellda niðurskurð á bráðaþjónustu geðdeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur.