Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:12:02 (4636)

2000-02-22 14:12:02# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum dögum bárust fréttir af því að Geðlæknafélag Íslands hefði á fundi sínum þann 7. febrúar sl. gert samþykkt þar sem varað er eindregið við fyrirhuguðum niðurskurði á þjónustu við geðsjúka. Telja geðlæknarnir að ef þær tillögur sem þá lágu fyrir um niðurskurð yrðu samþykktar af heilbrrh. yrði um fjórðungsfækkun á bráðarýmum fyrir geðsjúka á Íslandi að ræða en hér á landi eru geðræn vandamál mjög almenn.

Sem betur fer hefur hæstv. heilbrrh. samkvæmt nýjustu fréttum ákveðið að milda þennan niðurskurð nokkuð, en samt á að skera niður bráðaþjónustu. Einnig á að leggja af hælið í Gunnarsholti og flytja sjúklinga þaðan í Arnarholt í 13 rými en þar var deild einmitt með 13 rýmum lokað fyrir tveimur árum og búið er að vera að mála hana síðan, ef marka má hæstv. heilbrrh. Þessi skerðing kemur auðvitað verst við þá sem verst eru haldnir í þessum sjúklingahópi.

Eftir sjálfsvígabylgju þá sem gengið hefur yfir að undanförnu kemur það úr hörðustu átt þegar sérstaklega á að nota niðurskurðarhnífinn til að skerða bráðaþjónustu við geðsjúka. Það er einnig viðurkennd staðreynd að ónóg meðferð geðsjúkdóma á byrjunarstigi getur leitt til mikilla örðugleika seinna á ævinni og jafnvel varanlegrar örorku. Hér á landi þarf að byggja upp geðlæknisþjónustuna, bæði spítalaþjónustu og þjónustu göngudeilda og sambýla. Á þessu sviði er ekkert svigrúm til niðurskurðar, herra forseti. Þar er þörf á fjármagni til uppbyggingar.

Okkur sem stóðum að afgreiðslu fjárlaga núna fyrir jól er mikið umhugsunarefni hvers vegna látið var líta svo út sem fjárveitingar til sjúkrastofnana væru í samræmi við fjárþörf þeirra miðað við óbreyttan rekstur að mati stjórna og forstöðumanna viðkomandi stofnana, en nú virðist mér annað vera að koma í ljós, hæstv. forseti.