Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:14:15 (4637)

2000-02-22 14:14:15# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í gærkvöldi fullyrti hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir í sjónvarpi að heilbrigðiskerfið á Íslandi væri svo að niðurlotum komið að almenningur streymdi nú á miðilsfundi til að fá bót meina sinna.

Herra forseti. Nú, innan við sólarhring síðar, stendur þessi sami hv. þm. fyrir umræðu um heilbrigðismál og ætlast til þess að vera tekinn alvarlega. Málflutningur hv. þm. er með ólíkindum, kemur í sjálfu sér ekki á óvart en dæmir sig vissulega sjálfur og verður þeim mun alvarlegri sem málið er viðkvæmara. Þannig hefur hv. þm. hér í þingsal sem og í fjölmiðlum haft uppi harða dóma um barnaspítalann sem nú er í smíðum og notað orð á borð við aðskilnaðarstefnu vegna þess að barna- og unglingageðdeild skyldi ekki fundinn staður í þeirri byggingu.

Herra forseti. Það hefur ítrekað verið upplýst opinberlega, m.a. í ágætri blaðagrein fyrrv. forstjóra Ríkisspítalanna, Vigdísar Magnúsdóttur, og hér í þingsal, hvernig forsendur fyrir barnaspítala voru lagðar. Þetta voru ekki persónulegar niðurstöður hæstv. heilbrrh. heldur fagleg niðurstaða hóps sérfræðinga, þar á meðal stjórnenda barna- og unglingageðdeildar, niðurstaða sem byggir á því að barnaspítali sé best settur við hlið kvenna- og vökudeildar, niðurstöður sem bygga á því að lóðin beri ekki þá 2.000--3.000 fermetra sem geðdeild þarf á að halda, niðurstöður sem fagfólk dró upp með rökum, niðurstöður sem hæstv. heilbrrh. féllst réttilega á.

Þetta forseti. Þetta hefur fyrir löngu verið upplýst. Faglegar skýringar lætur hv. þm. sig hins vegar engu varða en kýs þess í stað að slá upp í gífuryrðasafni sínu. Haldi hv. þm. að slíkur málflutningur sé málstað veikra barna eða sjúklinga til framdráttar þá fer hv. þm. villur vegar.