Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:18:44 (4639)

2000-02-22 14:18:44# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Katrín Fjeldsted:

Hæstv. forseti. Málefni geðsjúkra eru vandmeðfarin og miklu skiptir hver skilaboðin eru til þeirra og fjölskyldna þeirra úti í þjóðfélaginu. Ég tel að stjórnvöld og allir sem sitja á Alþingi Íslendinga séu sér meðvitaðir um vanda geðsjúkra og fjölskyldna þeirra. Hins vegar er fjöldi sjúkrarúma ekki endilega mælikvarði á gæði eða magn þjónustunnar.

Það er nú svo að geðsjúkir koma víða við í heilbrigðisþjónustunni og það er eðlilegt að þeir séu meðhöndlaðir á réttum stað í heilbrigðiskerfinu. Flestir eru líkast til í meðferð hjá sínum heimilislæknum, enda sýna tölur um lyfjanotkun t.d. þunglyndislyfja það skýrt og það er líka eðlilegt.

Næsta skref er meðhöndlun á göngudeildum og dagdeildum sjúkrahúsanna en einnig á einkareknum stofum sérfræðinga í geðsjúkdómum og sömuleiðis sálfræðinga úti í bæ. Það er hópurinn sem eftir er sem þarf á spítalavistinni að halda.

Það er alveg ljóst í mínum huga að með því að hafa sama heilbrrh. við stjórnvöldinn í heilbrigðisþjónustunni nú í rúm fjögur ár, þá hefur verið unnið markvisst að málefnum geðsjúkra á Íslandi eins og í öllum þáttum heilbrigðisþjónustunnar. Það er hægt að fylgja málum eftir og byggja þau upp af viti og það er verið að gera og ég lýsi ánægju minni með það. Skilaboðin eru alveg skýr. Þjónusta við geðsjúka mun halda áfram með þeim gæðum sem þeir þarfnast.